Menntaskólinn að Laugarvatni hefur ávallt gert leiklistargyðjunni hátt undir höfði. Frá því á fyrstu árum skólans hafa verið sett upp verk af ýmsum gerðum og stærðum, allt frá einföldum litlum þáttum upp í gríska harmleiki og svo söngleiki með hljómsveit og öllu tilheyrandi. Nú í seinni tíð hefur sú hefð skapast að annað hvert ár er sett upp stórt stykki sem sett er upp í Aratungu og farið er með á flakk í framhaldinu en hin árin er það minna um sig og látið nægja að sýna í skólanum fyrir nemendur, starfsmenn og þá sem á annað borð vilja koma.

Þetta árið var það söngleikurinn Með allt á hreinu sem byggður er á samnefndri kvikmynd sem allir þekkja og fjallar um ferðalag tveggja hljómsveita um landið og þeirra samskipti sem oft eru æði skrautleg. Það sem var sérstakt að þessu sinni var að nú voru það nemendur sjálfir sem sáu um nánast allt. Þau Högni Þorsteinsson og Esther Helga Klemenzardóttir sáu um að endurskrifa handritið og leikstýra verkinu. Matthías Tryggvi Haraldsson sem flestir þekkja sem söngvarann úr Hatara ætlaði að vera þeim innan handar en þegar til kom þá var hans aðkoma aðeins sú að hjálpa til með að skipa í hlutverk. Það tókst a.m.k. vel því erfitt hefði verið að sjá aðra skipan þar, því hvert og eitt þeirra skilaði sínu með stakri prýði og allir þeir áhorfendur sem komu á sýningar þeirra síðustu daga eru eflaust sammála því.  Það er magnað að geta snarað saman úr röðum nemenda úrvals hljómsveit sem rúllaði upp hverju laginu af öðru með miklum glæsibrag og ljóst er líka að kórinn er að þroska fólk verulega í sviðsframkomu og viljastyrk því allir þeir sem þarna sungu gerðu það með sóma.

Án þess að hafa kannað það sérstaklega efast ég a.m.k. um að nokkur annar framhaldsskóli fari sömu leið og ML þegar kemur að því að flakka með svona. Það er stórhugur fólginn í því og gerist ekki nema með samstilltu átaki margra. Skólinn styður dyggilega við bakið á nemendum, þau sjálf leggja mikla vinnu í þetta því það er óhemju tími sem fer í að æfa svona stórt stykki. Það gera krakkarnir að mestu í n-stofu í skólahúsinu en síðustu vikuna er svo farið með sviðsmyndina í Aratungu og þangað eru þau keyrð á hverjum degi kl. 16.00 og oftast komið heim skömmu fyrir kl. 23.00. Eftir frumsýningu eru 2 sýningar í Aratungu en þá er öllu pakkað saman í kerru og nú hefst erfiði parturinn. Að þessu sinni fórum við á mánudeginum eftir frumsýningarhelgina í Þingborg, á fimmtudeginum í Hlégarð í Mosfellssveit og á föstudag og laugardag voru sýningar á Hvolsvelli. Lokasýning var svo í Vík í Mýrdal. Það er mikil vinna að setja upp sýningu með öllu sem snýr að ljósum, hljóðkerfi, sviðsmynd, sminki, hárgreiðslu og fleiru. Þetta gera þau allt sjálf og það verða að teljast forréttindi að fá að fylgja þeim í þessu ferli. Ljóst að fátt þroskar þau meira í skólastarfinu með fullri virðingu fyrir því almennt séð, því þarna reynir á samvinnu og mikið hópefli er fólgið í allri þeirri vinnu sem að baki liggur.

Hérna eru margar og afar skemmtilegar myndir!

Pálmi Hilmarsson.