Menntaskólinn að Laugarvatni er kominn í samstarf við Bláskógaskóla á Laugarvatni og Skógrækt ríkisins um vistheimt á Langamel. Melurinn er er við gamla Gjábakkaveginn, í vestanverðum Helgadal þar sem áður var skíðasvæði Laugarvatns. Hluti Langamels er innan skógræktargirðingar.
Aðstæður á melnum eru slæmar. Þar blæs kaldur strengur niður Helgadal og er virkt rof á þessu svæði, bæði vind- og vatnsrof. Gróður hefur látið á sjá síðustu árin sem ML hefur vaktað svæðið. Í ljósi þessa réðumst við í róttækar aðgerðir. Við fengum styrk 100.000 kr. styrk frá sveitarfélaginu Bláskógabyggð til að kaupa áburð, gras – og hvítsmárafræ en Skógræktin lagði til 600 birkiplöntur og Yrkjusjóður 300 plöntur.
Nemendur á mið- og elsta stigi Bláskógaskóla unnu að uppgræðslunni núna í maí, en þegar ljóst var að ekki næðist að klára efnið á skólatíma, komu heimamenn okkur til aðstoðar við að ljúka verkinu. Við eigum svo sannarlega góða að.
Við ákváðum að byrja að græða upp innan skógræktargirðingar. Alls náðum við að fara yfir svæði sem er um 2 hektarar að stærð. Enn er stórt svæði eftir og ætlum við að halda áfram að vinna að uppgræslu á Langamel um óskilgreinda framtíð. Einhvern tímann verðum við svo að breyta nafninu úr Langamel í Langaskóg, Fagraskóg eða annað viðeigandi. Þarna sjáum við fyrir okkur skemmtilegt útivistarsvæði.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem tóku þátt og veittu okkur styrk í þetta brýna verkefni og hlakka til áframhaldandi samstarfs.
Heiða Gehringer
formaður umhverfisnefndar ML