Nemendur í myndlist brugðu sér af bæ fimmtudaginn 4. mars til að skoða nokkur listasöfn í Reykjavík. Við fórum fyrst á Kjarvalsstaði og sáum sýningu eftir Sigurð Árna: Óravídd. Sigurður nær að leika sér skemmtilega með skugga og langar okkur að mæla með því að fara að skoða verkið hans „Sólalda“ á Sigölduvirkun í hádeginu á lengsta degi ársins (https://www.arkiv.is/art/2886) . Það er eini dagur ársins þar sem listaverkið kastar „réttum“ skugga á virkjunina. Við skoðuðum líka verk Kjarvals og sáum náttúru Þingvalla í nýju ljósi. Eftir hamborgara á Hard Rock fórum við í Hafnarhúsið. Við skoðuðum sýninguna „Dýrslegur kraftur“ sem sýnir verk Errós og annarra listamanna sem vinna í svipuðum stíl. Við sáum líka fleiri sýningar: ljósmyndasýninguna „Þar sem heimurinn bráðnar“ eftir Ragnar Axelsson (RAX), „Krókótt“ eftir Klæng Gunnarsson og „Werk – labor work“ eftir Huldu Rós Guðnadóttur. Nemendur mæla sérstaklega með sýningu RAX, hún er eitthvað fyrir alla. Allir nemendur okkar fengu ókeypis árskort í listasöfn Reykjavíkur og vil ég minna aðra nemendur á þetta tilboð sem stendur út þetta ár. Það veitir einnig 10% afslátt í safnabúðunum. Áhugasamir hafi samband við mig á netfanginu heidag@ml.is .

Að lokum gengum við í yndislegu veðri á Listasafn Íslands og sáum þar samsýninguna „Halló geimur“, vídeósýninguna „Of the north“ og „Berangur“ eftir Georg Guðna. Nemendur voru ákaflega hrifnir af drunganum í verkum Georgs Guðna.

Þetta var ansi strembinn dagur hjá okkur en krakkarnir voru kurteisir og jákvæðir þrátt fyrir að vera orðnir fótalúnir í lokin. Ég fyllist alltaf stolti þegar ég fer með stóran hóp sem vekur athygli fyrir prúðmennsku og áhuga. Þessi ferð víkkaði sjóndeildarhring okkar og kveikti hjá okkur margar spurningar og vonandi innblástur í listsköpun okkar.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr ferðinni.

Heiða Gehringer