Veturinn hefur verið heldur óhefbundinn hjá okkur hérna í kórnum. Fyrir áramót voru litlar sem engar æfingar enda öll í fjarnámi, eftir áramót hittumst við loksins en þurftum að skipta kórnum upp í minni hópa. Það voru klassískir hópar, popphópur og svo millihópur. Einnig var sérstakur stúlknahópur til þess að fara ekki yfir fjöldatakmarkanir en kórinn samanstendur í heild sinni af 125 nemendum og kórstjóri er hún Eyrún Jónasdóttir.
Við gátum því miður ekki haldið okkar árlegu vortónleika en ákváðum þess í stað að taka upp tvö lög með hverjum hóp sem þau hafa verið að æfa í vetur og deila því með ykkur. Eftir upptökur fóru hóparnir svo saman út að borða í Efstadal og fengu ljúffenga ísinn þeirra í eftirrétt. Myndböndin voru tekin víðs vegar um Laugarvatn og þökkum við sérstaklega Fontana, Eldskálanum og Héraðskólanum fyrir að veita okkur aðgang að þeirra aðstöðu og mælum auðvitað sérstaklega með því að kíkja þangað í sumar. Einnig langar okkur að þakka Pálma húsbónda ML fyrir alla hjálpina! Hann hefur burðast með píanóið og kórpallana fyrir okkur út um allt og keyrir rútu hvert sem okkur dettur í hug að fara hverju sinni, hann á mikið lof skilið fyrir það. Við þökkum einnig Gísellu og Jóni fyrir fallegt undirspil (píanó og gítar) með sínum hópum.
Kórinn ætlar sér svo að komast til Ítalíu næsta vor en því miður höfum við misst mikið af tekjumöguleikum okkar þetta og síðasta ár þar sem við höfum ekki getað haldið tónleika. Okkur langar því að óska eftir frjálsum framlögum til styrktar kórsins um leið og við vonum að þessi myndbönd svali tónleikaþorsta ykkar í bili. Við stefnum svo á frábæra jólatónleika næsta haust og hlökkum til að sjá ykkur þar!
Njótið vel og endilega styrkið kórinn okkar með því að leggja inn á þetta reikningsnúmer og setið í skýringu: MLkór
Kennitala: 700575-0559
Reikningsnúmer: 0370-13-401927
Hér eru upptökurnar sem getið var um hér að ofan; Uppskeruhátíð Kórs ML – YouTube
og hér er fjöldi mynda.
Njótið 🙂
Karen Dögg verkefnastýra kórs ML