Þá er nóvember kominn, og með honum teljum við niður dagana til haustannarprófa, sem hefjast 2. desember. Prófatímanum lýkur þann 19. desember. Próftöfluna má sjá undir rauða hnappnum hér hægra megin á síðunni.
Nóvember er hreint ekki tíðindalaus þó prófin séu framundan. Þriðjudaginn 15 nóvember er ML-dagurinn, þegar hundruð nemenda úr efstu bekkjum grunnskóla á Suðurlandi koma í kynnis-, keppnis- og skemmtiferð. Eftir hádegisverð er keppt í körfubolta og skák en því næst leiða nemendur okkar gestina um húsakynni skólans. Að loknum kvöldverði hefst síðan Blítt og létt, söngkeppni ML.Þetta er tíminn þegar nemendur gera upp við sig hvernig gengið hefur að uppfylla fyrirheitin frá því í skólabyrjun – hvernig gatan hefur verið gengin. Miðannarmat kennara gaf vissulega vísbendingar, sem miklvægt er að taka mark á. Þeir sem vel standa í undirbúningi sínum fyrir prófin, ganga nú hnarreistir þann vegarspotta sem eftir er. Aðrir þurfa að setja undir sig hausinn og ganga til móts við glímuna ákveðnir og bjartsýnir. Það er ekki fyrr en þessi lota öll er hjá sem við getum einbeitt okkur að því að hugsa um jólahátíð og allt sem henni fylgir.
Koma svo (eins og íþróttamennirnir heyrast stundum segja í hvatningarskyni)
pms