IMG 4573smFarið var í hina árlegu skíða- og skautaferð nemenda útivistar um síðastliðna helgi og var ferðinni heitið á Akureyri eins og undanfarin ár. Breyta þurfti ferðaáætlun á síðustu stundu vegna slæmrar veðurspár og var því lagt af stað tæpum sólarhring seinna en venja hefur verið. Strax eftir morgunmat föstudaginn 16. janúar lagði rútan upp frá Menntaskólanum að Laugarvatni og sat Pálmi Hilmarsson við stýrið. Kennarar að þessu sinni voru Helga Kristín Sæbjörnsdóttir og Smári Stefánsson og voru 24 nemendur mættir, allir skráðir í útivist, bæði úr grunn- og framhaldsnámskeiðum.

 

Ferðin norður gekk vel. Það var áð í Staðarskála, en síðan lá leiðin í íþróttaheimili KA á Akureyri, gististað hópsins. Eftir kjúkling og ís í mötuneyti Menntaskólans á Akureyri lá leið í Skautahöllina þar sem tók við skautadiskó. Allir nemendurnir fóru á skauta, en þarna höfðu þau tækifæri til þess að skauta á eigin forsendum, sumir fóru strax út á svellið öruggir og sáttir en aðra þurfti aðeins að hvetja áfram þar til að minnsta kosti einni ferð hafði verið náð slysalaust. Allir stóðu sig vel, engin teljandi meiðsli urðu á fólki en þreyttir og sælir nemendur komu sér vel fyrir í KA heimilinu eftir langan dag.

Á laugardagsmorgni vöknuðu nemendur í morgunverðarhlaðborð og undirbjuggu daginn í fjallinu. Hópnum var skipt niður í vana og óvana. Þeir sem voru lengra komnir fóru strax sína leið í fjallinu og nutu þess að skíða ýmist á skíðum eða brettum í fallegu en þó frekar svölu veðri. Byrjendurnir fóru með Helgu Kristínu í svokallað Töfrateppi en það er mjög góð byrjendabrekka og hentar einstaklega vel til kennslu. Hópurinn var fljótur að ná töktunum og voru flestir farnir að færa sig í stærri brekkurnar upp úr hádegi. Smári hélt utan um þá sem þurftu minni leiðbeiningar og voru allir komnir í fullt fjör mjög fljótlega eftir að komið var í fjallið. Í skálanum sat Pálmi og hrærði í dýrindis kjötsúpu ásamt því að útbúa hlaðborð fyrir nemendur sem gátu farið hvenær sem þeir vildu til þess að hvíla lúin bein, næra sig eða spjalla. Dagurinn var frábær, allir komu heilir niður úr fjallinu og fór stór hluti hópsins í sund, hinir sátu og spjölluðu, dúruðu, lásu eða spiluðu í KA heimilinu. Eftir pítsuveislu skundaði hluti hópsins í bíó á meðan hinir hvíldu sig og höfðu það notalegt.

Á sunnudagsmorgni var aftur farið í fjallið. Sólin reis hægt á loft og var frostið um 12 gráður. Það var því fallegt veður, algjört logn en kalt þegar þau renndu sér fyrstu ferðirnar. Dagurinn var heldur styttri en fyrri dagurinn enda þurfti að koma nemendum heim á Laugarvatn. Eftir snögga sturtu nemenda í KA heimilinu hélt rútan af stað með ánægt en þreytt skíðafólk en stefnan var sett á Blönduós. Á Blönduósi var var gert stutt hlé á ferðinni til að nærast. Það var boðið upp á súpu og fisk hjá vertinum sem hugsaði afar vel um gestina með vel kúfuðum diskum af dýrindis mat. Þaðan lá leiðin áfram heim og kom rútan heim í hlað við Menntaskólann að Laugarvatni rétt fyrir miðnætti.

Nemendurnir stóðu sig sérstaklega vel, voru jákvæðir og algjörlega til fyrirmyndar. Samstaðan var góð í hópnum, allir sýndu tillitsemi og var ekki annað að sjá en að vinaböndin styrktust til muna.

Takk fyrir góða ferð,

Helga Kristín Sæbjörnsdóttir.