feverÞað var haustið 2009 sem skólinn breytti fyrirkomulagi í kringum veikindatilkynningar nemenda þannig, að í stað læknisvottorða dygði að forráðamaður tilkynnti veikindi. Utan um framkvæmd þessa var smíðað ákveðið vinnulag, sem felur það í sér, í stórum dráttum, að þegar nemandi vaknar að morgni og metur stöðu mála svo, að hann sé veikur, þá er það það fyrsta sem hann gerir, að hafa samband heim til sín. Ræðir þar við forráðamann sinn um stöðuna. Forráðamaðurinn, sem manna best þekkir sitt heimafólk, bætir sínu mati við og niðurstaðan verður annaðhvort sú, að nemandinn teljist veikur, en þá hefur forráðamaðurinn samband við skólann og greinir frá stöðunni og þar eru veikindin síðan skráð. Verði niðurstaðan hinsvegar sú í samtalinu, að forráðamaðurinn telur að hér séu hreint ekki veikindi á ferðinni, heldur eitthvað allt annað, skipar hann barni sínu að hysja upp um sig buxurnar og koma sér í skólann. Sannarlega eru margar útgáfur af þessum aðstæðum.

Fljótlega eftir að ofangreint fyrirkomulag var tekið upp, var ákveðið, eftir fyrirspurnir frá nemendum, að gefa þeim sem orðnir væru 18 ára, og þar með lögráða, tækifæri til að fara þessa sömu leið. Þetta var gert þannig, að það var útbúið eyðublað þar sem viðkomandi nemandi veitti tilteknum einstaklingum (aðstandendum sínum) umboð til að sjá um veikindatilkynningar fyrir sig, eins og um ólögráða einstakling væri að ræða.

Með þessu þurfa aðstendendurnir sem um ræðir, að veita formlegt samþykki sitt, sem þeir gera á sama eyðublaði.  Þessu umboði og samþykki fylgir síðan, að viðkomandi aðstandendur fá áfram að hafa aðgang að upplýsingum um nemandann og geta fjallað um málefni hans við skólann og skólinn við þá.

Um síðustu áramót höfðu 32 lögráða nemendur farið þessa leið af 71, sem verður að teljast harla gott.

Skólinn telur miklilvægt, þar sem kannanir hafa leitt í ljós að foreldrar greiða að langstærstum hluta fyrir dvöl barna sinna í skólanum öll 4 árin, að þeir hafi góðar upplýsingar um nýtingu fjármunanna og ekki síður fá tækifæri til að fylgjast með líðan barna sinna betur en ef til vill ella. 

pms