slokkvaForvarnir af ýmsu tagi eru fastir liðir hjá ML. Skólin hefur ávallt reynt að hafa augun opin fyrir öllu sem betur má fara og brugðist við ábendingum í þá veru ef þær hafa borist.

Fyrir nokkru var haldin rýmingaræfing í skólanum og í tengslum við hana spunnust umræður um notkun handslökkvitækja. Öryggisnefnd skólans gekkst því fyrir æfingu í meðferð slíkra tækja og síðastliðinn föstudag kom Snorri Baldursson frá Brunavörnum Árnessýslu og sá um það fyrir okkur.

 Hann byrjaði á fróðlegu erindi á sal um eðli elds og fór einnig yfir helstu gerðir handslökkvitækja. Að því loknu var genginn hringur um skólahúsið og farið yfir hvar slökkvitækin eru staðsett og hvaða gerðir væru á hverjum stað fyrir sig. Það er mismunandi hvað hentar hverju sinni. Þá var farið út fyrir og Snorri kveikti í feitipotti sem við fengum síðan að slökkva í með dufttæki. Þegar allir höfðu fengið að slökkva var svo kveikt í öðrum og minni potti sem er af hefðbundinni stærð í eldhúsum á heimilum. Síðan prófuðu allir að slökkva þann eld með eldvarnarteppi sem vitanlega á að vera skylda að hafa í hverju eldhúsi. Getur bjargað miklu og sparar mikil þrif sem þyrfti að ráðast í ef notað er dufttæki.

 

Æfingin tókst með ágætum og Snorra færðar þakkir fyrir komuna.

 

Öryggisnefnd ML/ph

Myndir frá æfingunni