korinn mar12Árshátíð skólans var haldin að loknum Dagamun og Dolla, s.l. föstudagskvöld í félagsheimilinu á Flúðum. Til að gera langa sögu, en skemmtilega, stutta, þá fór sú samkoma öll eins og best varð á kosið og var öllum þeim sem að komu til sóma.

Kórinn okkar, stóri og góði, eflist stöðugt og flutti nokkur lög við upphaf samkomunnar, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Sveinn Jónsson, matreiðslumeistari (Svenni kokkur) og starfsfólkið allt í eldhúsinu lagði á sig ómetanlegt starf við allt utanumhaldið með veislumatnum.  Þórhallur Þórhallsson sá um veislustjórn og skautaði stundum á mörkum velsæmis að einhverra mati en náði óneitanlega að vekja bæði bros og skellihlátur. Jón Bjarnason hélt utan um dansiballshlutann af stakri fagmennsku sem fáir geta leikið eftir. Stefán Arngrímsson, húsvörður var betri en enginn í aðstoð við hvaðeina.  Fjöldi annarra, bæði nemenda og starfsfólks, ásamt nemendum úr efsta bekk í grunnskóla Bláskógabyggðar, kom að undirbúningi og framkvæmd og allt bar að sama brunni.

Formaður Ársáhátíðarnefndar, Jóhanna Ýr Bjarnadóttir, stendur líklega uppúr  fyrir einstaklega vandaðan undirbúning og utanumhald – þar var sko hugsað fyrir öllu.

Ef einhverjir gleymast í þessari upptalningu þá er það miður, en þeir stóðu sig einnig með afbrigðum vel, ef svo er.

-pms

MYNDIR Í MYNDASAFNI