ml60utiÞað er glampandi sólskin á Laugarvatni í dag og full ástæða til. Menntaskólinn að Laugarvatni var stofnaður þann 12. apríl, 1953 og hann og við fögnum því, með laugvetnskri afmælishátíð, sem hófst kl. 8:30 með árbít. Síðan tekur hvert atriðið við af öðru fram til klukkan 16:00.

Klukkan 11:00 verður kraftakeppni utan dyra. Þar verður skorið úr um, hverjir hljóta titlana ML-skessan og ML-tröllið. Á sama tíma munu vaskir ML-ingar leggja stund á glímu. Þar að auki stendur til að taka í notkun útiblakvöll, en hann er minningargjöf um Matthías Bjarka Guðmundsson, en hann lauk stúdentsprófi frá skólanum 1987.

 

Kl. 13:00 hefst formleg dagskrá í matsalnum, með stuttum ávörpum og tónlist. Þar verða veitt verðlaun í myndbandasamkeppni sem efnt var til og sigurmyndin verður sýnd. Í lok dagskrárinnar í matsalnum verður gestum boðið að gæða sér á dýrindis tertu.

Kl. 14:00 verður síðan margt um að vera um allt hús: gamlir ML-ingar rifja upp rósrauða fortíð sína á Laugarvatni, það verða tónlistaratriði og sýningar.

Kl. 15:30 ætlar kórinn að láta sönginn hljóma um allt húsið og með honum lýkur dagskránni formlega, þó gestir geti áfram sest niður og fylgst með myndefni af ýmsum toga á 5 mismunandi stöðum í húsinu..

Verið öll hjartanlega velkomin.

Myndina sem fylgir hér, af okkur ML-ingum mynda stafina ML60 tók Þorgeir Sigurðsson, nemandi í 4. bekk..

-pms