lognlaugarvatniNú er hægt og hægt að nást sá taktur sem við ML-ingar viljum gjarnan að einkenni vetrarstarfið. Nýir nemendur eru sem óðast að átta sig á þeirri menningu sem einkennir þennan heimavistarskóla með bekkjarkerfi, sem þeir eru komnir. Eldri nemendur eru komnir aftur með bros á vör, þegar reyndir í siðum og venjum. Þeir byrja skólaárið sneisafullir að góðum fyrirætlunum, stærri, að flestu leyti, en í fyrra og þroskaðri. Einhverjir starfsmanna eru lítillega byrjaðir að láta á sjá, en þó er ekki hægt að líta framhjá æskuglóðinni sem er enn til staðar – það er bara misdjúpt á hana. Gleðin er söm, starfsandinn aldeils ekki neitt til að kvarta yfir. Það er í rauninni aðeins eitt sem strýkur skjáfólki í öfuga átt, en það líður hjá. 

Svo höldum við bara áfram. Fyrsta vikan gekk vel. Hérna og hérna birtast rafrænar minningar frá henni. 

 

Eftirfarandi sendi skólameistari frá sér á skírnardegi þetta haustið, í tilefni af svokallaðri „busaviku“:

 

Í ríflega hálfa öld hefur innvígsla nýnema farið fram með skírn í Laugarvatni.  Engin breyting verður á því.  Umgjörð og aðdragandi skírnarinnar hefur hinsvegar tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina.  Stjórnendur skólans og stjórn nemendafélagsins Mímis, hverju sinni, hafa unnið saman að því að aðlaga atburði svonefndrar busaviku til samræmis við þjóðfélagsbreytingar og því hafa átt sér stað mjög jákvæð breytingar, ekki síst á síðasta áratug.  Yfirskrift daganna er jákvæðni og gleði enda á upplifun allra að vera sú þegar nýnemar koma upp úr vatninu eftir skírnina og fá afhenta rós frá stallara fyrir hönd nemendafélagsins. Eldri nemendur gera sér grein fyrir mikilvægi þess að vel sé að öllu staðið.  Nýnemar hafa frelsi til að víkja frá því að taka þátt í hefðum ef þeim hugnast þær ekki og það ber öllum að virða.  Atburðir busavikunnar eru í raun þættir í leikriti sem á að vera eftirminnileg og jákvæð upplifun að taka þátt í.  Nemendur eru að kynnast og ljóst er að það eflir kynnin enn frekar hjá þeim að upplifa allt það saman sem er að gerast í félagslífinu þessa fyrstu daga í skólanum. Skírninni í ár lauk rétt áðan og voru það brosandi andlit sem sáust á ströndinni við vatnið fagra í dag.“

Megi komandi vetur hverfa í sjóð jákvæðra og þroskandi minninga.

– pms