kennarastofaHér verður fjallað lítillega um það sem unnið hefur verið að og verið er að vinna að, innanhúss í skólanum. (Fleiri myndir).

S.l. vor var tekin í notkun lyfta sem lengi hefur verið beðið eftir. Hér er sannarlega ekki á ferðinni sú hraðskreiðasta lyfta sem um getur, og þar að auki þarf að halda hnappi inni til þess að lyftan stöðvist ekki á ferð sinni milli hæða. EN – hér er um að ræða afskaplega mikilvægt tæki til að auðvelda flutninga innanhúss og fyrir þá sem erfitt eiga með stiga. Það hefur verið nefnt, í hálfkæringi auðvitað (þarf varla að taka það fram) að tilkoma lyftunnar helgist fyrst og fremst af því, að árin færast yfir umsjónarmann fasteigna.

 

Þegar kennarar komu til starfa í haust, hafði kennarastofan fengið slíka andlitslyftingu að sumum varð orða vant. Það var komið parket á gólfið og hin fínasta innrétting í eldhúskrók, sem er auðvitað ekki hægt að kalla krók lengur, heldur miklu frekar eldhússvæði. Þarna voru komin upp fínustu tæki til að blanda þá drykki sem kennarar telja sig þurfa í frímínútum, kælitæki fyrir nestið og uppþvottatæki til að sjá um að allt verði hreint næsta dag.

Í þessari viku hefur verið hér maður að störfum við að setja upp fasta hátalara í nánast allar kennslustofur skólans, en þörfin fyrir svona búnað hefur vaxið hratt á undanförnum árum, líklega í réttu hlutfalli við lækkandi meðalaldur kennara.

Á næstu mánuðum verður fjöldi borða og stóla í kennslustofum endurnýjaður, auk þess sem nýjar töflur verða settar upp.

pms