AlmannavarnirÍ nýliðinni viku fékk skólinn góða gesti í heimsókn frá Lögreglunni á Suðurlandi og Veðurstofu Íslands.  Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri Suðurlands flutti erindi í sal mötuneytisins um almannavarnarmál á Suðurlandi, skipulag og umfang.  Eins kynnti hann fyrir nemendum lögreglunámið sem komið er á háskólastig.

Kristín Jónsdóttir hópstjóri Náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar fór síðan yfir hlutverk Veðurstofunnar hvað almannavarnarmál varðar, mögulega náttúruvá, vöktun hennar og störf starfsmanna á veðurstofunni innanhúss sem utan enda kallar vöktun náttúruvár á miklar rannsóknir og eftirlit um landið.  Einnig flutti hún fróðlegt erindi um jarðfræði Íslands sem eldfjallaeyjar.  Salurinn var þéttskipaður nemendum og spurðu þau fyrirlesara fjölda spurninga í lokin.  Afar vel heppnuð kynning og fróðleg.

Um kvöldið var sveitarfélagið Bláskógabyggð með viðlíka kynningu fyrir íbúa í tilefni almannvarnarviku í kjördæminu.  Kjartan lögreglustjóri og Kristín frá Veðurstofunni héldu fyrirlestra um sömu málaflokka og fyrr um daginn en með annarskonar nálgun.  Að auki kom Jón Örvar Bjarnason byggingaverkfræðingur hjá Viðlagatryggingu og hélt fyrirlestur um starfsemi og hlutverk þeirrar stofnunar frá upphafi.  Einnig sýndi hann á myndrænan hátt yfirlit yfir tjón þau sem Viðlagatrygging hefur bætt í gegnum tíðina vegna jarðskjálfta, snjóflóða, vatnsflóða og annarrar náttúruvár. Um 60 manns mættu á kynninguna og sköpuðust skemmtilegar umræður í lokin.  Sérlega vel heppnað kvöld. Myndin sem fylgir er frá íbúafundinum.

 Megi allir hafa þökk fyrir.

Hph