Stjórnmálafr MobileÁ köldum febrúarmorgni, þann sjötta nánar tiltekið, lögðu nemendur í 2F af stað í vettvangsferð til Reykjavíkur. Þau nema nú stjórnmálafræði og ferðuðust í fylgd með kennara sínum, Freyju Rós Haraldsdóttur og bílstjóranum Pálma Hilmarssyni. Að þessu sinni heimsóttu þau Alþingi og Bessastaði og enduðu í hádegisverði á Grillhúsinu.

Færðin setti strik í reikninginn og varð til þess að heimsókn í Alþingi var í styttri kantinum. Sigríður Helga leiðsagði okkur um húsið og deildi ýmsum fróðleik um störf þingsins. Henni gekk vel að velja úr aðalatriðin og þetta var fróðlegt og skemmtilegt, þó stutt væri. Það er upplifun að sjá með eigin augum inn í Alþingishúsið og setja sig í spor okkar kjörnu fulltrúa. Vilhjálmur  Árnason, þingmaður úr Suðurkjördæmi, slóst í hópinn í Alþingishúsinu. Hann hvatti nemendur til að láta sig stjórnmál varða og útskýrði hvernig það er að starfa sem þingmaður. 

Næst lá leiðin á Bessastaði þar sem forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson tók vel á móti hópnum, alþýðlegur að vanda. Það sköpuðust fróðlegar, líflegar og skemmtilegar umræður við kaffiborðið.  Boðið var upp á kleinur, te og kaffi. Kaffið var af bestu sort, „besta kaffi sem ég hef smakkað“, höfðu nokkur á orði. 

Þakkir til allra sem tóku þátt. Það er stór viðbót við stjórnmálafræðiáfangann að komast í svona ferð. 

Freyja Rós Haraldsdóttir kennari 

Myndir úr ferðinni eru hér.