Ipc Mobile

Alþjóðasamtök skólastjórnenda, ICP – International Confederation of Principals, héldu sína þrettándu alþjóðaráðstefnu í Höfðaborg í Suður-Afríku dagana 22.-25. september s.l.  Fjórir skólameistarar framhaldsskóla á Íslandi sóttu ráðstefnuna, m.a. Halldór Páll Halldórsson skólameistari ML.  Um 1.200 þátttakendur voru á ráðstefnunni, þar af 300 frá öðrum þjóðlöndum en SA eða frá 28 þjóðum.

 Yfirskrift ráðstefnunnar var „Brain Waves of Change“. Í megindráttum var fjallað um það hvað hraðvaxandi tækni kallar á í framtíðinni, um gjörbreytta nálgun í námi og kennslu, svo og ekki síður um rannsóknir á heilastarfsemi mannsins sem á sér stað við lærdóm.  Hin mjög svo hraða breyting tækninnar og þar af leiðandi náms- og kennsluumhverfis nemenda og kennara er í veldisvexti og er ekki hægt að segja fyrir um með öryggum hætti hvernig menntun þjóðir heimsins þarfnast í framtíðinni eða til hvernig starfa þarf að mennta börn, ungmenni og fólk.  Fram kom hjá mörgum fyrirlesurum að kennsla þurfi að þróast úr greinatengdri nálgun yfir í mikla samþættingu námsgreina þar sem sérhver nemandi, sérstaklega á efri skólastigum, horfi til sinna markmiða og viði að sér þekkingu úr hinum ýmsu námsgreinum til að nálgast þau markmið. Nám og kennsla þurfi að vera í mjög auknum mæli verkefnamiðuð, efla þarf samskiptahæfni ungmenna og læsi í víðtækri merkingu orðsins, læsi á orð, athafnir og umhverfi.  Með þetta í huga þurfi skólakerfi þjóða að þróast .. og breytast.

Eins var fjallað um heilbrigði, samspil tækni og heilsu, um agastjórnun eða öllu heldur um virkjun sjálfsaga hjá nemendum og starfsmönnum, um rannsóknir á heilsu skólastjórnenda, um menntakerfi og menntastefnu í Suður-Afríku og mörgum öðrum löndum. Fjallað var og um þau vandamál sem víða er verið að glíma við og leiðir til lausna þeirra svo eitthvað sé nefnt.

Fyrirlesarar voru um fimmtíu, hvaðanæva úr heiminum, fjölmargir þeirra heimsþekktir á sínu sérsviði.

Árið 2015 var 12. alþjóðaráðstefna ICP haldin í Helsinki í Finnlandi og að tveimur árum liðnum, árið 2019, verður 14. ráðstefnan haldin í Sjanghai í Kína.

Á myndinni eru þátttakendur frá Íslandi, talið frá vinstri:  Halldór Páll Halldórsson skólameistari ML, Helga Kristín Kolbeins skólameistari FÍV, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari FB og Hjalti Jón Sveinsson skólameistari Kvennaskólans.

Hph