Skólahald hefur gengið ljómandi í Menntaskólanum að Laugarvatni eftir að allir nemendur komu í hús. Til að koma nemendum fyrir innan sóttvarnarreglna höfum við fengið að koma hluta nemenda fyrir í Héraðsskólanum, því fagra húsi. Við í ML erum afar stolt af nemendum okkar sem virða grímuskyldu og aðrar sóttvarnarreglur með glæsibrag. Samstaðan er okkur mikilvæg og forsenda þess að allt gangi vel.

Stjórnarskipti hjá nemendafélaginu hafa gengið þokkalega fyrir sig þrátt fyrir að sóttvarnarreglur geri aðalfund og framkvæmd kosninga flóknara en í venjulegu árferði. Nemendur eru virkir í skólastarfinu og nú hefur nefnd tekið til starfa sem mun skipuleggja uppbrotsdagana okkar, Dagamun, þar sem allir viðburðir verða að samræmast sóttvarnarreglum. Verkefnin sem við þurfum að leysa í Covid eru bæði krefjandi og skemmtileg.

Nú fer að líða að hefðbundnu uppbroti á skólastarfinu en 22. og 23. febrúar verður annarleyfi og nemendur og kennarar í fríi. 24., 25. og 26. febrúar verður svo Heimavika svokölluð, en Heimavikan er hugsuð þannig að nemendur sem búa langt frá skólanum hafi þarna tækifæri um miðja önn til að dvelja heima í nokkra daga og sinna náminu í gegnum gegnum Teams fjarfundabúnað. Kennt verður samkvæmt stundatöflu en nemendur og kennarar í fjarvinnu sem við þekkjum nú orðið betur en okkur langaði eftir langa haustönn 2020 í Covid heimasetu.

Með ósk um ánægjulegt annarleyfi

Jóna Katrín, skólameistari

Mynd: Gríma Guðmundsdóttir