Jardfraediferd-frettÁ þriðjudaginn 5 apríl var farið í hina árlegu jarðfræðiferð. Að þessu sinni var ekkert eldgos í grennd og því farinn hefðbundinn hringur um nágrennið en óhætt er að segja að fáir skólar í heiminum geti náð eins fjölbreytilegri jarðfræðiferð á jafn stuttum tíma og við í ML. Farið var á Geysi í Haukadal þar sem Strokkur naut sín vel. Síðan var keyrt að Gullfossi en þá var komin nokkur úrkoma en fæstir létu það aftra sér og gengu við niður að fossinum og skoðuðum jarðlögin sem Hvítá hefur sorfið niður síðustu árþúsundin. Eftir það var keyrt að Seyðishólum þar sem sólin var farin að skína og lék veðrið við okkur það sem eftir lifði dagsins. Á leiðinni á Selfoss var stoppað við Kerið og við Ölfusárbrú.

Eftir pizzustopp var keyrt að Kögunarhól og gengið upp á Silfurberg þar sem þetta einkennilega berg og bergangurinn sem þar er var skoðaður. Að lokum var keyrt að Þingvöllum með viðkomu á Nesjavöllum og loks viðkomu við Vellankatla og komum við heim um fjögur leytið.

 

Ekki er hægt að segja annað en að ferðin hafi gengið mjög vel. Undirrituð þakkar Pálma fyrir keyrsluna og nemendum 4 bekkjar fyrir samveruna.

Jóna Björk