grunnsbokasNú í vetur, eins og undanfarna vetur, hefur bókasafnsfræðingur ML farið einu sinni í viku með bókakassa í grunnskólann og komið sér og innihaldi kassanna fyrir í matsalnum.

Þangað hafa nemendur svo komið til að sækja sér nýtt lesefni og skila því sem búið var að lesa, eða bara til að sitja og njóta þess að lesa eða skoða bækurnar. Í vetur hafa leikskólanemendur bæst í hóp þeirra sem sækja þetta örútibú bókasafnsins heim.

Það verður að segjast að vesenið við að burðast með bókakassa upp og niður tröppur, út og inn í bíl í íslensku veðri, gleymist þegar niður í skóla er komið. Það er ótrúlega skemmtilegt að hitta krakkana, sem allflest eru miklir lestrarhestar. Mörg renna sér léttilega yfir eina yndislestrarbók á viku eða hálfum mánuði, og þó að önnur séu kannski ekki eins afkastamikil við lesturinn núna, þá kemur það með æfingunni. Svo er alltaf notalegt lesa með mömmu og/eða pabba, þá er hægt að lesa til skiptis, saman eða hafa hvaða annan hátt á.

Nú sýna rannsóknir sterka fylgni á milli lesturs barna og námsgengis, þannig er gildi þess að halda bókum stíft að börnum hreint ótvírætt.

Á hverjum vetri nú undanfarin ár hafa krakkarnir í 1.-6. bekk tekið þátt í að velja barnabók ársins á undan. Þ.e. núna um daginn völdu þau barnabók ársins 2011.

Það verður að segjast eins og satt er að engin bók varð afdráttarlaus sigurvegari hjá krökkunum þetta árið.

Sagan Galdrakarlinn í Oz, Glósubók Ævars vísindamanns og bókin um skrítnu karlanna Úkk og Glúkk fengu þó flest atkvæði – eða fjögur atkvæði hver bók.

Að venju voru dregnir út tveir heppnir lestarhestar, sem fengu bók í sinn hlut. Að þessu sinni voru það þær stöllur Soffía Margrét Sigurbjörnsdóttir og Alice Alexandra Flores sem urðu þær heppnu.

Grunn- og leikskólanemendur koma að sjálfsögðu líka á bókasafnið hér í Menntaskólanum, bæði ein, með vinum eða foreldrum. Stundum koma líka heilu hópar nemenda á öllum aldri með kennaranum sínum, bæði til að skoða, lesa og ná í lesefni, eða til að vinna að einhverju tilteknu verkefni.

Þannig var það einmitt hér um daginn þegar Lára Hreinsdóttir kennari í grunnskólanum kom með nemendur í 8., 9. og 10. bekk til að afla heimilda og hefja vinnu við ritgerð í sögu.

Við það tækifæri voru myndirnar teknar, þessar sem eru hér á myndasíðunni.

-Valgerður