Skólahaldi dagsins hefur verið frestað þangað til veðrið gengur niður.  Veðurhæð er mikil, kóf og blinda og erfitt að ferðast á milli húsa.  Mötuneytið opnaði seinna en ráð var fyrir gert þar sem starfsfólk komst ekki í tæka tíð en það verður opið fyrir morgunmat eins lengi og þörf krefur.  Hádegismatur verður á venjulegum tíma, kl. 12:15, enda má reikna með að veður verði þá skaplegra.

Það er ekki algengt að fella niður eða fresta skólahaldi vegna veðurs í heimavistarskóla sem ML þar sem yfir 90% nemenda eru á vistum hans.  Er þetta öðru sinni, síðan undirritaður skólameistari tók til starfa í ML fyrir um 11 árum síðan, að hann tekur ákvörðun um að fresta skóla vegna óveðurs.  Eins og staðan er í augnablikinu er ekkert gönguveður milli húsa.  Margir starfsmenn eru tepptir heima hjá sér úti í þorpi og þeir sem eiga um lengri veg að fara, s.s. frá Laugarási eða Eyrarbakka, eru veðurtepptir.  Fréttir herma þó að í Laugarási sé blíða, hið fegursta vetrarveður.

Nemendur og starfsmenn fá fjöldapóst þegar breyting verður á.  Tilkynning verður þá einnig sett á heimasíðu skólans.

hph