Seinnipart kynningardagsins var söngkeppni nemendafélagsins Mímis, Blítt og létt, haldin í Íþróttahúsi Bláskógabyggðar á Laugarvatni. Keppnin var hin glæsilegasta og umgjörð öll sem nemendur ML sköpuðu sérlega fagmannleg.  Nemendur ML og grunnskólanna, fjölmargir foreldrar og starfsmenn sem og íbúar víða að fjölmenntu á viðburðinn.

13 atriði kepptu um Hljóðkútinn svonefnda, verðlaunagrip Blítt og létt. Hljómsveit atvinnumanna lék undir flest laganna en í nokkrum þeirra voru það nemendur ML sem sáu um undirleik. Kynnar voru að venju nemendur útskrifaðir vorið áður. Í ár voru það þau Rakel Sara Hjaltadóttir og Nói Mar Jónsson, sem fóru á kostum. Hlutverk dómara keppninnar, þeirra Karls Hallgrímssonar, Fríðu Hansen og Jóns Jóseps Snæbjörnssonar, var erfitt því sérhvert atriði var verðlauna virði.   En að lokum urðu úrslitin þessi:

Skemmtilegasta atriðið:

Þorfinnur Þórarinsson og Orri Bjarnason með lagið Africa með Toto

Þriðja sæti:

Freyja Benónýsdóttir með lagið Idontwannabeyouanymore eftir Billie Eilish

Annað sæti:

Oddný Benónýsdóttir með lagið Unaware eftir Allen Stone

Fyrsta sæti, sigurvegararnir, handhafar Hljóðkútsins í ár:

Bergrún Anna Birkisdóttir með lagið All I Ask eftir Adele

Meðfylgjandi myndir tók Ívar Sæland ljósmyndari

VS