Söngkeppnin Blítt og létt var haldin í íþróttahúsinu á Laugarvatni fimmtudaginn 6. nóvember síðastliðinn. Söngkeppnin er einn stærsti viðburður í dagatali skólaársins og ávallt mikil eftirvænting eftir þessari tónlistarveislu sem setur sinn svip á skólahaldið. Hefð er orðin fyrir því að fyrr um daginn sé nemendum úr 10. bekk víðsvegar að af Suðurlandi boðið í heimsókn í ML og þau fá leiðsögn um skólann og kynningu á skólastarfinu. Það er því margt um manninn í íþróttahúsinu en samtals um
4-500 áhorfendur fylla bekkina.

Söngkeppnin var fyrst haldin haustið 1989 í ML og voru það þeir Sigmundur Sigurgeirsson og Hjörtur Freyr Vigfússon sem áttu mestan heiður af því að koma keppninni á laggirnar á sínum tíma og til gamans má geta að fyrsti sigurvegari keppninnar var Magnús Smári Snorrason. Þeir félagar voru liðsmenn í hljómsveitinni Hver sagði skál? Og stóð hljómsveitin að baki upphafsdögum keppninnar og sáu þeir um undirleik fyrir keppendur. Eitthvað hefur keppnin vaxið frá því á upphafsdögum hennar og í ár var haldin undankeppni í ML til að njörva niður þau 12 atriði sem fengu að njóta sín í aðalkeppni skólans. Sigmundur þáði boð skólans um að vera heiðursgestur keppninnar í ár og hann hafði orð á því hversu glæsileg keppnin hefði verið og naut þess mjög að vera viðstaddur Blítt og létt 2025. Takk fyrir komuna Simmi!

Á 36 ára afmæli keppninnar var það hljómsveitin Stone Stones sem lék undir hjá keppendum eins og mörg fyrri ár. Flestir liðsmenn bandsins eiga taugar til ML og það eru mikið verðmæti í því fyrir keppnina og ekki síst skólann að tónlistarmenn á heimsmælikvarða skuli koma ár eftir ár til að annast undirleikinn. Flestir keppendur eru sammála um að það sé mikil upplifun að fá að syngja með svona flottan undirleik til stuðnings. Til að fylla risastórt rýmið hljóði hafa meistararnir hjá EB kerfum séð um hljóðkerfið og það var ekki af verri endanum í þetta skiptið. Það var mál manna að bæði hljóðið og ljósasýningin hafi verið með því betra sem sést hefur enda var keppnin í alla staði stórglæsileg.

En að máli málanna. Sigurvegari keppninnar árið 2025 var Sigurður Emil Pálsson með lagið Sumar konur eftir Bubba Morthens og verður hann þá fulltrúi skólans í aðalkeppninni sem haldin verður vorið 2026. Í öðru sæti varð Hjördís Katla Jónasdóttir með lagið Braggablús í útsetningu Bubba Morthens. Í þriðja sæti varð Hallgrímur Daðason með frumsamið lag, Eins og þá. Skemmtilegasta atriðið unnu þær Aðalheiður Sif Guðjónsdóttir, Metta Malín Bridde og Sigurbjörg Marta Baldursdóttir með lagið Sveitapiltsins draumur sem Hljómar gerðu góð skil fyrir einhverju síðan. Dómnefnd skipuðu þau Elva Rún Pétursdóttir, Pálmi Gunnarsson og Fannar Ingi Friðþjófsson. 

Við óskum verðlaunahöfum innilega til hamingju með góðan árangur! Að auki fá allir nemendur bestu hamingjuóskir því það krefst hugrekkis og hæfileika að stíga á stokk fyrir framan fullt hús af fólki. Sérstakar þakkir fær að lokum stjórn nemendafélagsins Mímis sem á veg og vanda að keppninni með skemmtinefndarformenn í fararbroddi, þá Gunnar Geir Rúnarsson og Elmar Örn Þorsteinsson. Einstaklega flottar myndir voru teknar á viðburðinum og við viljum benda áhugasömum að skoða Fasbókarsíðu Mímis til að nálgast þær.