Seinnipart kynningardagsins var söngkeppni nemendafélagsins Mímis, Blítt og létt, haldin í Íþróttahúsi Bláskógabyggðar á Laugarvatni. Keppnin var hin glæsilegasta og umgjörð öll sem nemendur ML sköpuðu sérlega fagmannleg.  Nemendur ML og grunnskólanna, fjölmargir foreldrar og starfsmenn sem og íbúar víða að fjölmenntu á viðburðinn.

Tíu söngatriði kepptu um Hljóðkútinn svonefnda, verðlaunagrip Blítt og létt. Hljómsveit atvinnumanna lék undir flest laganna en í nokkrum þeirra voru það nemendur ML sem sáu um undirleik. Kynnar voru að venju nemendur útskrifaðir vorið áður. Í ár voru það þau Sunneva Björk Helgadóttir og Sigurður Pétur Jóhannsson, sem fóru á kostum. Hlutverk dómara keppninnar, þeirra Karls Hallgrímssonar, Karitas Hörpu Davíðsdóttur og  og Árna  Hjaltasonar, var erfitt því sérhvert atriði var verðlauna virði.   En að lokum urðu úrslitin þessi:

Skemmtilegasta atriðið:

ÞUNGAVIGTARMENN, þeir Ástráður Unnar Sigurðsson á hljómborð, Halldór Friðrik Unnsteinsson á trommur, Hörður Freyr Þórarinsson á bassa, Sölvi Rúnar Þórarinsson á rafmagnsgítar og Hermundur Hannesson söng og spilaði á gítar, allir nemendur úr þriðja bekk, en þeir fluttu lagið „Leðurspáin“ með hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir.

Þriðja sæti:

RIDDARARADDIR, Þröstur Fannar Georgsson spilaði á gítar, Almar Máni Þorsteinsson spilaði á bassa og Karen Hekla Grönli söng, öll nemendur í fyrsta bekk, en þau fluttu lagið „Toxic“ með Melanie Martinez.

Annað sæti:

Glódís Pálmadóttir úr þriðja bekk flutti lagið „Arms“ með Cristina Perri við undirleik húshljómsveitarinnar.

Fyrsta sæti, sigurvegararnir, handhafar Hljóðkútsins í ár:

Ljósbrá Loftsdóttir og Laufey Helga Ragnheiðardóttir nemendur í öðrum bekk fluttu frumsamt lag, „Can‘t hold it on“ við undirleik hljómsveitarinnar.

Meðfylgjandi myndir tók Ívar Sæland ljósmyndari

VS