Fyrir réttu ári, eða í janúar 2011, þegar útlán ársins 2010 voru tekin saman, kom í ljós að töluverð útlánaaukning hafði orðið þar á milli ára. Þannig voru heildarútlán ársins 2009, 1886 – en heildarútlán ársins 2010, 1964, þ.e. 4% aukning. Þá, að fenginni þeirri niðurstöðu, var markið sett enn hærra. Árið 2011 skyldi 2000 eintaka útlánamúrinn rofinn!
Það gekk heldur betur eftir. Heildarútlán ársins 2011 voru s.s. 2430 – 23% aukning milli ára. Ef dæmið er sett upp þannig að lagður er saman nemendafjöldi ML og íbúafjöldi Laugardals, sem eru gróflega reiknað um 400 mannsbörn, þá eru rúmlega sex útlán á hvern og einn.
Nú má hafa í huga að safnið er eingungis starfrækt á skólatíma, þ.e. að það er lokað yfir sumarmánuðina frá 15. júní – 15. ágúst.
Núna s.l. haust, eða þann 16. nóvember, voru fimm ár frá því að nýtt húsnæði bókasafns ML var formlega tekið í notkun. En allt haustið 2006 stóðu yfir flutningar á safnkosti úr gamla góða Héró, í sérhannað bjart og rúmgott húsnæði á annarri hæð menntaskólahússins.
Fyrsta heila útlánsárið í nýrri aðstöðu var því árið 2007. Það ár voru heildarútlán samtals 1761. Þannig hefur orðið 37% útlánaaukning á þessum fimm árum. Svona tölur gleðja svo sannarlega hjarta bókasafnsfræðingsins!
Valgerður Sævarsdóttir, forstöðumaður bókasafns ML