Í dag er síðasti kennsludagur skólaársins og fyrsta prófið er á laugardag. Reglulegum prófum lýkur síðan mánudaginn 19. maí.
Dagskrá stóra dagsins er óðum að mótast, en brautskráning nýstúdenta og skólaslit hefjast í íþróttahúsi HÍ kl. 14:00. Það eru 35 ungmenni sem stefna á útskrift á þessu vori.
Fyrir athöfnina verður framkvæmdur sá gjörningur þriðja sinni, að fyrstu stúdentar frá skólanum, 60 ára júbilantar, koma saman til myndatöku á sama stað og daginn sem þeir útskrifuðust og daginn þegar þeir fögnuðu hálfrar aldar stúdentsafmæli. Á myndunum sem þegar hafa verið teknar af þeim félögum á þessum stað, með 50 ára millibili, voru menntamálaráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk skólameistaranna Sveins Þórðarsonar, 1954 og Halldórs Páls Halldórssonar árið 2004. Þessu sinni er gert ráð fyrir að núverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, taki þátt í myndatökunni, en skólameistarinn er sá sami og síðast. Því miður vantar nú einn þeirra félaganna sem þarna munu fagna merkum áfanga.
Að lokinni athöfninni í íþróttahúsinu, fer fram formleg opnun á endurnýjaðri heimavistarálmu Nasar.
Sem fyrr er gestum boðið í hátíðarkaffi og um kvöldið hittast júbílantahóparnir yfir hátíðarkvöldverði og rifja upp gengin spor á Laugarvatni.
Eftir ljúfan nætursvefn á heimavistum, skokkar fólkið svo glaðbeitt til morgunverðar í Garði.
pms