útskrift 2018Brautskráning og skólaslit Menntaskólans að Laugarvatni fór fram laugardaginn 26. maí að viðstöddu fjölmenni, en um 600 manns voru viðstaddir athöfnina að þessu sinni.

Brautskráðir voru 65 nýstúdentar.  22 úr fjórða bekk, 16 af félagfræðabraut og 6 af náttúrufræðabraut, og 43 úr þriðja bekk, 22 af félags- og hugvísindabraut og 21 af náttúruvísindabraut. Þetta er mesti fjöldi sem hefur verið útskrifaður á skólaslitum í sögu skólans, enda í fyrsta sinn sem nemendur í þriggja ára kerfi eru útskrifaðir.

Dagskrá var hátíðleg og hefðbundin, skólameistari Halldór Páll Halldórsson flutti ræðu, kór skólans söng við athöfnina, staðgengill skólameistara og áfangastjóri skólans Áslaug Harðardóttir flutti annál skólaársins. Fulltrúi 20 ára júbílanta hélt tölu og afhenti skólameistara gjafir afmælisárganga. Gjafir júbílanta voru að þessu sinni fjárstyrkir til kórsins, myndasíðu NEMEL og í Styrktarsjóð Kristins og Rannveigar.

Fjörutíu ára júbílantar færðu skólanum málverk til minningar um Guðrúnu Erlu Ingvadóttur, skólsystur þeirra, sem lést fyrr í vor.

Ávarp nýstúdenta flutti Sigrún Birna P. Einarsson fv. stallari.

Skólameistari afhenti Guðjóni Elissyni viðurkenningu fyrir alúð og einstakt framlag hans við endurgerð skólapjalda skólans og sleit að því loknu skóla í 65. sinn.

Dux nýstúdenta fjórða bekkjar er Arndís Hildur Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Flóa með 9,17 í vegið meðaltal allra áfanga áranna fjögurra og semidux Rúnar Guðjónsson frá Melum í Hrunamannahreppi með vegið meðaltal 9,12.

Dux nýstúdenta þriðja bekkjar er Írena Rut Stefánsdóttir frá Hveragerði með 9,35 í vegið meðaltal allra áfanga áranna þriggja og semidux Bjarnveig Björk Birkisdóttir frá Brekku í Þykkvabæ með vegið meðaltal 9,23.

Dux scholae nýliðins vetrar með einum aukastaf, er Írena Rut Stefánsdóttir frá Hveragerði með einkunnina 9,9.

Semi duces scholae eru tveir fyrstu bekkingar en það er þær Anna Björg Sigfúsdóttir frá Borgarfelli í Skaftártungu og Helga Margrét Óskarsdóttir frá Hruna í Hrunamannahreppi, báðar með einkunnina 9,4.

Í ellefta sinn voru veittir styrkir úr styrktarsjóði fyrrverandi skólameistarahjóna, Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, en styrki úr honum hljóta, samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins, nemendur Menntaskólans að Laugarvatni sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi.

Að þessu sinni hlutu styrk þau Arndís Hildur Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum,  Rúnar Guðjónsson frá Melum, Dana Heiða Becker frá Teigi í Laugarási, Írena Rut Stefánsdóttir frá Hveragerði, Bjarnveig Björk Birkisdóttir frá Brekku og Ragnheiður Olga Jónsdóttir frá Laugarvatni.

Fjöldi nýstúdenta hlaut viðurkenningu bókaformi fyrir námsárangur og störf að félagsstörfum.

Myndir frá athöfninni má sjá hér.