stud2017Útskrift Menntaskólans að Laugarvatni fór fram við hátíðlega athöfn á laugardaginn var.  Fjölmenni var viðstatt, aðstandendur nýstúdenta og júbilantar, en rík hefð er fyrir því að afmælisárgangar skólans mæti við útskrift og skólaslit.

 28 nýstúdentar útskrifuðust, 14 af hvorri brautinni, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut. Fjölmargir þeirra hlutu viðurkenningar frá skólanum og öðrum aðilum fyrir framúrskarandi árangur í námi.  Dúx nýstúdenta er Kristinn Hrafnsson frá Ólafsvík en hann var með aðaleinkunnina 9,16 sem er vegið meðaltal allra áfanga áranna fjögurra sem hann hefur setið.  Semidux nýstúdenta er Edda Sól Ólafsdóttir frá Patreksfirði með aðaleinkunnina 8,93.

Dux Scholae er Bjarnveig Björk Birkisdóttir frá Brekku í Þykkvabæ, en vegið meðaltal áfanga vetrarins hjá henni var 9,6.  Semidux Scholae er Írena Rut Stefánsdóttir frá Hveragerði með aðaleinkunnina 9,5.

Veittir voru styrkir úr Styrktarsjóði Kristins og Rannveigar, nú tíunda sinni, til þeirra nýstúdenta „sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi“ eins og stendur í stofnskjali sjóðsins.  Styrki hlutu Kristinn Hrafnsson, Edda Sól Ólafsdóttir, Valgeir Bragi Þórarinsson frá Selfossi og Narfi Hjartarson frá Patreksfirði.

Júbilantar færðu skólanum gjafir m.a. peningagjafir til að kosta áframhaldandi uppsetningu myndasíðu Nemendasambands ML, NEMEL, en Páll M. Skúlason fyrrverandi aðstoðarskólameistari hefur unnið að því verki nýliðið skólaár, í hlutastarfi,  að setja myndir úr lífi og starfi í skólanum frá stofnun hans árið 1953 inn á vef.  Krækja á myndasíðuna: nemel.ml.is.  

Páll lætur nú af störfum við skólann, en hann starfaði í ML sem enskukennari, námsráðgjafi og  aðstoðarskólameistari í 31 ár, þar af síðustu 18 árin sem aðstoðarskólameistari.  Var honum fært að gjöf á skólaslitum málverk af Laugardalnum eftir listakonuna Sigurlínu Kristinsdóttur.

60 ára júbilantar færðu skólanum að gjöf minningarskjöld um bekkjarbróður sinn Dr. Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing, er lést árið 2011, en hann var einn af virtustu fræðimönnum um vistfræði sjávar á norðurslóðum og þekktastur fyrir rannsóknir á útbreiðslu uppsjávarfiska, sérstaklega loðnunnar.

Nánari upplýsingar um ævi og störf Hjálmars má nálgast hér.

hph

MYNDIR  pms    MYNDIR ph/eþ

Ræða skólameistara og annáll skólaársins