Nýstúdentar ML 201644 nýstúdentar voru brautskráðir frá Menntaskólanum að Laugarvatni s.l. laugardag, 28. maí. Þetta er fjórði stærsti hópur nýstúdenta í sögu skólans. 23 luku prófi af félagsfræðabraut og 21 af náttúrufræðabraut.

Félagar úr kór skólans, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur, sungu tvö lög við athöfnina.

Í ræðu skólameistara, Halldórs Páls Halldórssonar kom m.a. fram að umsóknir um skólavist á komandi hausti eru talsvert umfram það sem skólinn getur tekið við. Þá greindi skólameistari frá því að Áslaug Harðardóttir hafi verið ráðin í nýja stöðu áfangastjóra frá haustinu, en Páll M. Skúlason, aðstoðarskólameistari mun jafnframt minnka við sig.

Aðstoðarskólameistari  flutti annál skólaársins og greindi meðal annars frá því, að unnið er að því að koma upp veflægu myndasafni, þar sem á að vera hægt að leita að myndum frá tilteknum árum og þannig eiga ML-ingar á öllum tímum geta rifjað upp mestu mótunarár ævinnar.

Fyrir hönd júbílanta talaði Hjálmar Gíslason, 20 ára stúdent.  Hann ljóstraði upp þrem leyndarmálum. Það fyrsta snýst um að fullorðið fólk sé í raun ekki til, annað leyndarmálið greinir frá því að samkennd sé mikilvægasti hæfileiki 21. aldarinnar og hið þriðja að heimurinn sé betri en fólk heldur.

Þá sagði Hjálmar: „Ég hef stundum sagt að það ætti að skylda alla til að ganga í heimavistarskóla að minnsta kosti hluta af sinni skólagöngu. Það er einstaklega þroskandi og mótandi og undirbýr mann undir margt sem seinna kemur í lífinu. Þið farið héðan með vinskap sem mun vara ævina á enda, tengsl sem munu koma sér vel við ótrúlegustu tækifæri síðar í lífinu – og auðvitað úrvalsgóða menntun sem þið munið búa að í framtíðinni“.

Ræðu Hjálmars í heild sinni má lesa  á slóðinni: hjalli.com.

Hæstu einkunn á stúdentsprófi og jafnframt hæstu einkunn yfir skólann og næst hæstu einkunn á stúdentstprófi í sögu skólans hlaut Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í gamla Sandvíkurhreppi, einkunnina 9,79. Guðbjörg brautskráðist af Félagsfræðabraut.  Næst hæstu einkunn stúdenta hlaut Teitur Sævarsson frá Arnarholti í Biskupstungum, 9.20. Hann nam á náttúrufræðabraut.

Fjórir nemendur hlutu styrk úr styrktarsjóði Kristins og Rannveigar. Auk Guðbjargar og Teits voru það þau Birgitta Kristín Bjarnadóttir frá Túni í Flóahreppi og Emil Sigurðarson frá Laugarvatni.

Fjölmargir afmælisstúdentar heiðruðu skólann með nærveru sinna, að vanda. Þeir sátu hátíðarkvöldverð og nutu samvista og upprifjunar á dvölinni í ML, fram á nótt. Áður en heim var haldið á sunnudagsmorgni, var hópnum síðan boðið til dögurðar hjá skólameistarahjónunum í Garði, svo sem hefð er fyrir.

pms

 

MYNDIR