img_0940Menntaskólanum að Laugarvatni var slitið og stúdentar brautskráðir, laugardaginn 29. maí. Það voru 25 stúdentar sem settu upp hvíta kollinn þessu sinni, 11 luku námi á félagsfræðabraut og 14 af náttúrufræðabraut.

Athöfnin fór fram í íþróttahúsi Háskóla Íslands og var fjöldi fólks viðstaddur að vanda. Í skólaslitaræðu Halldórs Páls Halldórssonar, skólameistara kom m.a. fram að nú væri skólinn skuldlaus við ríkissjóð, vegna aðhalds á undanförnum árum. Einnig að á þessu ári stefndi í að reksturinn verði í jafnvægi.

Í annál Páls M Skúlasonar, aðstoðarskólameistara kom fram að af 151 nemenda sem hóf nám s.l. haust hafi 145 gengist undir próf á þessu vori.

Að lokinni brautskráningu hlutu margir nýstúdenta  bókarviðurkenningar fyrir ágætan árangur í hinum ýmsu námsgreinum.

Dux Scholae er einn nýstúdenta af náttúrufræðabraut, Erna Jónsdóttir frá Vík í Mýrdal, en hún var með aðaleinkunnina 9,51 sem er með hæstu aðaleinkunnum í sögu skólans.  Erna hlaut fjölda viðurkenninga fyrir framúrskarandi árangur sinn.

Erna Jónsdóttir
Semidúxar urðu þau Sigrún Soffía Sævarsdóttir frá Borðeyri, nemandi í 1N og Jón Hjalti Eiríksson frá Gýgjarhólskoti í Biskupstungum, nemandi í 3N, með aðaleinkunnina 9,5 en í 1.-3. bekk er aðaleinkunn reiknuð með einum aukastaf.

Veittir voru styrkir í þriðja sinn úr Styrktarsjóði Kristins og Rannveigar til þriggja nýstúdenta … „sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi”…  eins og tilgreint er í stofnskjali sjóðsins að skuli vera forsenda styrkveitinga.  Styrki hlutu þær Erna Jónsdóttir, Þóra Húgosdóttir úr Kópavogi og Silja Runólfsdóttir frá Bolungavík.

Við athöfnina fluttu ávörp, Árni Benónýsson fltr. nýstúdenta, Árni Maríasson fltr. júbílanta, Páll Pétursson fltr. 50 ára stúdenta og Gunnar Þorgeirsson, formaður skólanefndar.

Skólameistari kvaddi tvo kennara sem hafa starfað við skólann um langt árabil, en eru nú að setjast í helgan stein. Þetta eru þau Anna Patricia Aylett, enskukennari og Hilmar Jón Bragason, efnafræði- og stærðfræðikennari.  Í kveðju- og þakklætisskyni afhenti skólameistari þeim loftmynd eftir Mats Vibe Lund, vetrarmynd af Laugarvatni.

Að athöfninni lokinni var öllum viðstöddum boðið til veislu og um kvöldið var árleg júbílantahátíð þar sem Sveinn Jónsson, matreiðslumeistari, reiddi fram krásir og gamlir félagar rifjuðu upp gamlar stundir og fregnuðu af því sem á dagana hefur drifið. Sannkölluð fjölskyldustemning hjá ML-stórfjölskyldunni.

pms/hph