Neyðarstjórn Menntaskólans að Laugarvatni fundaði í byrjun vikunnar og var ákveðið að fækka sóttvarnarhólfum í skólanum úr þremur í tvö. Skipulag í kringum þetta er nú í fullum undirbúningi en í skólanum er grímuskylda og meters bil tryggt á milli nemenda í skólastarfinu. Breyting þessi felur í sér að 2. og 3. bekkur mæta saman í skólann þann 5. október næstkomandi en fyrsti bekkur verður áfram í sínu sóttvarnarhólfi.

Mikilvægt er að nemendur virði allar sóttvarnir þegar þeir eru hér á staðnum og fari varlega í öllum ferðum sínum þegar þau eru í fjarvinnunni. Einstaklingsbundnar sóttvarnir eru mikið lykilatriði í baráttunni við Covid-19. Gert er ráð fyrir að nemendur í öðrum og þriðja bekk mæti á Laugarvatn seinni part sunnudagsins 4. október.

Nú hefur auglýsing Heilbrigðisráðuneytis um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar verið framlengd til 18. október. Okkur er því ljóst að hverju við göngum til þess tíma og með grímuskylduna teljum við okkur fært að gera ofangreindar breytingar. Þar með erum við fyrst og fremst að tryggja nemendum betri þjónustu en í ML er kennt eftir stundatöflu alla virka daga hvort sem um er að ræða staðkennslu eða fjarkennslu.

Hrós dagsins fá kennarar og nemendur fyrir að bregðast af æðruleysi og jákvæðni við öllu sem að þeim er rétt í þessum ólgusjó.

Skólameistari

(Mynd GG)