Frá og með deginum í dag og fram á föstudag er hefðbundið skólastarf fellt niður til að rýma fyrir hefðbundum Dagamun og Dollanum. Þessir þættir skapa nokkurskonar upptakt fyrir árshátíðina sem verður í Aratungu á næstkomandi föstudagskvöld. Nemendur hafa skipulagt dagskrá Dagamunar og þar er af ýmsu að taka, flest er þar með hefðbundnum hætti, en nokkrir þættir koma nýir inn t.d. mun hópur nemenda fylgja vatnssundsfólki út í Laugarvatn um hádegisbil í dag. Þá má nefna fyrirlestur um landbúnaðarmál, fjármálanámskeið, leiklistarnámskeið, jóga, pilates, útilarp, bókaspjall og ýmislegt fleira. Á Dagamun starfar Útvarp Benjamín að vanda, en er nú einungis sent út á netinu. Slóðin er: http://192.168.117.103:88/broadwave.m3u?src=1&rate=1.
Myndin sem hér fylgir er af kræsingum sem gestum voru bornar á skemmtikvöldi kórsins sem var í matsalnum s.l. sunnudagskvöld.
Hér eru fleiri myndir frá skemmtikvöldinu.
pms
Eftirskrift: Um Dagamun
Þegar upphaflega var farið af stað með að brjóta upp hefðbundið skólastarf með svona tíma á vorönn varð niðurstaða um að kalla fyrirbærið DAGAMUN. Þetta þótti vel til fundið og lýsa fyrirbærinu vel. Á þessum tíma myndu nemendur gera sér dagamun. Síðan þá virðast tengslin milli orðtaksins og nafnsins, sem valið var í upphafi, verið að trosna og þessa dagana tala nemendur um DAGAMUNI. Þá er það spurningin: Eiga þeir sem muna upprunann og búa yfir vitneskju um tengsl milli orðataks og nafns að reyna að breyta til baka, eða láta bara gott heita?
———
Slóðin á Útvarp Benjamín er: http://192.168.117.103:88/broadwave.m3u?src=1&rate=1
Slóðin á síðu Nemendafélagsins Mímis, þar sem nánar er fjallað um ýmislegt sem tengist nemendum er: https://www.facebook.com/ml.mimir?fref=ts