Dagamunur var haldinn í síðustu viku og var það dagamunanefnd sem sá um skipulag og umsjón með þessum viðburði. Dagamunur hófst eftir hádegi miðvikudaginn 9. mars og lauk með Dollanum föstudaginn 11. mars. Flest var með hefðbundnum hætti að þessu sinni, boðið var upp á ýmsa atburði þar sem innanbúðarfólk og utanaðkomandi aðilar voru kallaðir til. Má þar nefna nokkra fyrirlestra, meðal annars um kynlíf, lan, sjálfboðaliðastörf í Afríku og námskeið m.a. fótbolta, hnefaleika, förðun, dömulega hegðun, „kettlebells“, bílaviðgerðir, bridds, klifur, handavinnu, söng og nudd. Ekki er hægt að segja annað en að nemendur skólans hafi verið duglegir að mætta og haft áhuga á ýmsum málum, t.d. mættu 46 á briddsnámskeið þar sem Baldur Garðarson efnafræðikennari og Guðrún Einarsdóttir ritari leiðbeindu ungu og áhugasömu spilafólki. Fyrirlestur um kynlíf sló þó öll aðsóknarmet en dömunámskeið hjá Helgu Brögu og förðun hjá Haffa Haff féll einnig vel í kramið.
Þátttaka í ljósmyndamaraþoni hefði hinsvegar mátt vera meiri og ekki laust við að margir hafi séð eftir að láta ekki reyna á ljósmyndahæfileika sína þegar í ljós kom að í fyrstu verðlaun var myndavél og minniskubbar sem TRS á Selfossi gaf skólanum að þessu tilefni . Í ljósmyndamaraþoninu var lagt fyrir að taka þrjár myndir og var þemað „blátt“. Ljósmyndarinn í hópi nemenda, Þorgeir Sigurðsson, hélt stutt ljósmyndanámskeið í upphafi og lagði fyrir þema keppninnar. Sigurvegarinn var Aron Nökkvi Ólafsson nemandi í 1 bekk.
Dagamunanefnd þakkar öllum sem að Dagamun komu fyrir aðstoðina, einkum TRS á Selfossi, Pálma húsverði fyrir reddingar á hinu og þessu, Sveinna kokki fyrir þolinmæði með not á matsal, Ernu gjaldkera fyrir umsjón yfir peningarmálum, fyrirlesurum og námskeiðshöldurum.
F.h. Dagamunanefndar Jóna Björk Jónsdóttir.