Í upphafi samkomubannsins sem nú ríkir, skrifaði Pálmi Hilmarsson þúsundþjalasmiður pistilinn sem hér fer á eftir.

Meðfylgjandi myndir tóku Jónína Njarðardóttir vef- og upplýsingaformaður Mímis af Dollanum, Erla Þorsteinsdóttir húsfreyja á árshátíðinni og hér er krækja á fb-síðu nemendafélagsins þar sem  hægt er að skoða fleiri árshátíðarmyndir sem  Jónína Njarðardóttir tók. Þar má m.a. sjá hinar hefðbundnu stigamyndir.

Pistill Pálma.

Menntaskólinn að Laugarvatni er ríkur af hefðum og siðum af ýmsum gerðum og eitt af því sem hefur verið við lýði frá því elstu menn hér á bæ muna er Dagamunur. Þá er hefðbundin kennsla brotin upp og nemendur sitja námskeið, fyrirlestra eða hvað eina sem sett hefur verið upp í dagskrá Dagamunar en hana sjá nemendur um að skipuleggja. Má þar nefna útvarp Benjamín sem kallað er svo í höfuð Benjamíns Halldórssonar fyrrum húsvarðar. Sendir eru út nokkrir þættir og verðlaun veitt fyrir þrjá bestu þættina. Sent er út frá Stofu íslenskra fræða á bókasafninu og aðstaðan hin besta.

Á Dagamun í ár voru námskeið í myndlist, Sigga Kling kom í heimsókn, matreiðsla, kaffihús að franskri fyrirmynd var sett upp í Eyvindartungu, súmbakennsla, brjóstsykursgerð, prjónaskapur, ísbað í Laugarvatni, lan fyrir tölvuáhugamennina og þannig mætti lengi telja.

Dollinn, keppni milli hópa sem settir eru saman úr öllum nemendahópi ML fór svo fram fyrir hádegi á föstudag. Það er þrautakeppni af ýmsu tagi sem endar í íþróttahúsinu þar sem afhentur er bikar sem hópurinn sem sigrar fær nafn hópsins skráð á.  Þeir einu sem eru undanþegnir Dollanum er skreytinganefnd nemendafélagsins sem leggur mikla vinnu og natni í að skreyta matsalinn og n-stofu fyrir árshátíð og dansleik kvöldsins. Það gerðu þau listavel og eiga heiður og þakkir skyldar fyrir mikið starf þar.

Árshátíð ML hófst að þessu sinni með óvenjulegum hætti. Skólameistari hélt húsþing og fór þar yfir þá afar óvenjulegu tíma sem við stöndum frammi fyrir þar sem fyrr um daginn var tilkynnt að búið væri að setja á samkomubann vegna Covid19 veirunnar og loka ætti tímabundið öllum framhaldsskólum landsins auk háskólanna. Þetta þýddi að allir nemendur ML myndu fara heim fyrir sunnudagskvöld og sinna sínu námi að heiman um internetið, því ekki stæði annað til en að sjá til þess að þetta valdi sem minnstum vandræðum fyrir nemendur. Starfsfólk myndi  áfram sinna þeim störfum sem hægt er að sinna, kennarar senda nemendum verkefni, skrifstofan yrði opin, ræstingu yrði sinnt eftir þörfum en þvottahús og mötuneyti loka.

Það voru undarlegir straumar sem fóru um nemendur og starfsfólk þá stundina, en síðan var gengið í að láta árshátíðina verða þá bestu sem haldin hefur verið og hugsa ekkert um þetta á meðan. Kórinn söng listavel í upphafi, Gói kom og stjórnaði samkomunni í matsalnum og var afar vel gert hjá honum, maturinn hjá Svenna bryta og hans fólki bara klikkar ekki og skemmtiatriði nemenda og starfsmanna krydduðu kvöldið.

DJ Skúli tók svo við hópnum í n-stofu, fetaði þar í fótspor Jóns Bjarnasonar sem hefur séð um dansiballið á árshátíð í allmörg ár. Erfitt að koma á eftir honum, einfaldlega snillingur á sínu sviði, en Skúla tókst þetta mjög vel og hélt uppi miklu fjöri til loka dansleiks um kl. 01.30.

Nemendur nýttu þetta síðasta tækifæri til að hittast næstu vikur og dönsuðu og héldu vel um hvert annað, ekki laust við að stöku tár sæjust á hvarmi því þetta raskar mjög þeim tíma sem framundan var og mikil tilhlökkun var bundin við. Það er t.d. í mikilli óvissu hvort það verður framkvæmanlegt þegar þau koma aftur að setja upp leikritið sem til stóð að frumsýna helgina á eftir.

Hvað sem öðru líður er það von okkar allra að þær fórnir sem við færum með þessu öllu skili sér í allsherjar sigri við þá óværu sem er þessa dagana að skekja allt þjóðfélagið. Biðjum alla góða vætti að sjá til þess að samfélagið allt jafni sig og við komum til baka tvíefld til starfa í skólum landsins sem og á öðrum sviðum.

Pálmi Hilmarsson