Sisse_frettHjá okkur í Menntaskólanum er nú staddur danskur kennari, Sisse Mari Steenberg.  Sisse er hér vegna samstarfs sem í gildi er milli íslenska menntamálaráðuneytisins og þess danska.  Framhaldsskólum á Íslandi býðst að sækja um að fá til sín aðstoðarkennara í dönsku ár hvert og var ákveðið hér innanhúss að óska eftir því að fá Sisse til okkar nú á vorönn.  Hún er menntaður dönskukennari og hefur kennt í dönskum grunnskólum í 7. – 9. bekk síðan 1999.  Sisse er líka með framhaldsnám í því sem kallað er „friluftsliv“ eða útivist.  Hún er hér á Laugarvatni til að hjálpa okkur við að auka þátt talaðrar dönsku í námi nemenda. Hingað til okkar kemur hún frá Sauðárkróki en þar áður var hún á Ísafirði. Hér í ML verður hún í 6 vikur og óhætt er að segja að bæði nemendur og kennarar kunna vel að meta framlag hennar til kennslustundanna.  Nemendur eru smá saman að hrista af sér feimnina og sennilega verður ekki langt í að á þeim kjafti hver tuska – á dönsku. Á næstu vikum er ætlunin að nemendur æfi sig í dönsku tali með hjálp myndbandatækninnar og verður nemendum skipt í hópa í því verkefni.  Væntanlega verður svo haldið munnlegt próf síðustu vikuna sem danski gestakennarinn er hér með okkur.

Helgi Helgason, dönskukennari.

Timi_Sisse