Þrautakeppnin sem þátttakendum var boðið til s.l. föstudag, fól í sér ýmsar nýstárlegar áskoranir sem nemendur og starfsfólk skólans tókust á við af mikilli einurð. Nemendur sáu alfarið um skipulag Dollans þessu sinni og afgreiddu það verkefni af stakri prýði. Frá því um morguninn og til hádegis var fólk um allt hús að leysa þrautir og vinna að verkefnum, sem síðan voru flutt fyrir þar til skipaða dómara. Þrautakeppninni lauk í íþróttahúsinu þar sem einstaklingar úr hverjum keppninshópanna kepptu sín í milli (meðal annars í bjúgnaáti og blöðrublæstri). Þarna sýndu hóparnir einnig svokölluð „heróp“ sín, sem eru smám saman að þróast út í sýningaratriði. Gamninu lauk með pylsuveislu. Eftir hana tók við tími undirbúnings fyrir kvöldið þegar árshátíð var haldin, í félagsheimilinu á Flúðum í þriðja sinn.
Allt fór þetta auðvitað hið besta fram og ML-ingar komu sáttir til vinnu í morgun.
-pms