draugaferdAnnar bekkur fór í draugaferð 25. febrúar síðastliðinn, í tengslum við íslensku 403. Strax um morguninn var ljóst að ferðin yrði farin í miklu gjörningaveðri sem óvanalegt er í byrjun góu. Hópurinn komst þó klakklaust í Skálholt þar sem séra Egill Hallgrímsson tók á móti honum og sagði frá sögu staðarins og kirkjunnar og bauð svo hópnum til Þorláksbúðar. Öllum til óvæntrar ánægju birtist Jón Bjarnason organisti í kirkjunni og tók orgelið til kostanna við mikinn fögnuð viðstaddra.

 Eftir þessar góðu mótttökur var haldið út í þokuna á ný á vit nýrra ævintýra en með viðkomu á Selfossi því saddur magi er nauðsynlegur í slíkum ferðalögum. Enduðu ferðalangarnir á Stokkseyri, á meðal álfa, trölla og drauga og sannaðist enn og aftur að margt býr í þokunni. Eftir skræki nokkra og fáein óp náðist að heimta alla úr huliðsheimum og koma þeim inn í rútuna, loka öllum dyrum og bruna af stað inn í þokuna á ný. Um kaffileytið birtist rútan á bílastæðinu við Menntaskólann þar sem hún spratt eiturgræn fram úr þokunni og nam staðar fyrir framan skólann.

 

Annar bekkur var hvarvetna til mikils sóma fyrir sig og skóla sinn og færi ég honum þakkir fyrir góða samfylgd og skemmtilegt ferðalag. Pálma Hilmarssyni þökkum við fyrir að koma okkur á leiðarenda.

 Ingibjörg Jónsdóttir Kolka

myndir frá ferðinni