Eins og margir vita fór hluti af 3N til Perpignan í Frakklandi 12.-19. október sl, á vegum Erasmus +. Nú erum við komin heim og tími til kominn að klára ferðasöguna, en ég var búin að gera fyrstu fimm dögunum skil. Eftir standa þrír dagar sem mig langar að segja ykkur frá.
Miðvikudaginn 17. október fórum við í dagsferð upp í Pýreneafjöllin. Þá fengum við loksins sól, enda fórum við að skoða sólarorkuver (Thémis solar tower). Við fengum frábæran fyrirlestur frá skemmtilegum manni (sem ég veit ekki enn hvað heitir) – og í fyrirlestrarsalnum var stórt „Ted“ merki. Ef einhver getur fundið Ted-fyrirlestur úr sólarorkuverinu má viðkomandi senda mér slóðina. Við fengum líka að skoða sólarsellur og speglana sem varpa sólargeislum á þennan risastóra turn. Hitinn af geislunum hitar svo vatn sem leitt er upp í turninn. Nokkur brunagöt sáust á turninum þar sem mannleg mistök urðu, en turninn var ekki í notkun núna. Íslendingarnir höfðu jú áhuga á þessu öllu, en aðeins meiri áhuga á öllu fallega granítinu í kringum orkuverið.
Þennan dag fórum við líka inn í risastóran dropasteinshelli (les grandes Canalettes). Það var mikil upplifun en okkar krakkar höfðu í raun meiri áhuga á minjagripabúðinni þar sem hægt var að fá alls konar fallega steina (og steindir) úr hellinum.
Næsta dag fengum við örlítið frí frá skólanum til að fara að versla og skoða bæinn á eigin vegum. Það var yndælt. Um kvöldið hittust svo nokkrar fjölskyldur og fóru út að borða crépes pönnukökur.
Síðasta daginn okkar mættum við í skólann með okkar félögum og fórum í tíma með þeim. Sumir fóru í jarðfræði og fengu að skoða steindir en aðrir fóru í líffræði eða stærðfræði. Eftir hádegismatinn tókum við strætó niður á strönd og lékum okkur þar. Ýmislegt líf var þarna að sjá, eins og marglyttu sem skolað hafði á land. Það er alltaf gaman á ströndinni ef maður leyfir barninu inni í sér að njóta sín. Því var farið í sandkastalakeppni, sund og reynt að búa til veiðistöng úr reyr. Við fengum ekki mikinn tíma á ströndinni því við áttum eftir að fara með rútu til Barcelona. Þetta gekk allt saman vel og flugum við heim um kl 23 að kvöldi. Við vorum þreytt eftir ferðina og allir sváfu næstum alla leið heim. Pálmi kom svo og sótti okkur þegar heim kom.
Þessi ferð var virkilega góð og fróðleg. Ég er viss um að allir hafi lært margt nýtt og haft gaman af þessu öllu í heildina. Vissulega komu upp leiðindaatvik: flugdólgur var að áreita okkur, taska með tölvu og vegabréfi glataðist, veðrið var slæmt á þeirra mælikvarða og fáir töluðu ensku. Þetta hefði samt getað verið verra.
Mig langar bara að þakka öllu þessu vandaða unga fólki kærlega fyrir ferðina, sem og henni Grímu minni. Án hennar hefði ferðin verið glötuð, þar sem hún var túlkur okkar allra og var marga klukkutíma á lögreglustöðvum vegna töskunnar sem glataðist. Ég er mjög stolt af okkar hóp og vorum við skólanum og landi okkar til sóma.
Endilega skoðið fleiri myndir úr ferðinni
Heiða Gehringer