enskustSú var tíð í þessum skóla, að allar stofur drógu nafn af greinunum sem þar áttu helst aðsetur. Á stóra ganginum voru sögustofa, þýskustofa, dönskustofa, íslenskustofa og enskustofa. Síðan var byggt við og í nýju álmunni komu: stærðfræðistofa, eðlisfræðistofa og efnafræðistofa, á miðhæðinni og líffræðistofa, fyrirlestrasalur og N-stofa á neðstu hæðinni. (N-stofa er sytting á Nýja-stofa).

Þar kom, fyrir ríflega áratug, að breyttir tímar kölluðu á skrifstofu námsráðgjafa, aðstoðarskólameistara og skólaritara. Það varð úr að enskustofan var lögð af, og það rými sem hún hafði haft, var tekið undir þessar skrifstofur. Þar með fór tungumál Chaucer’s og Shakespeare’s á flakk og var á því þar til nú í vetur.  Við töflugerð síðastliðið haust fór svo, að öll enska var kennd í svokallaðri stærðfræðistofu. Eðlilega vildi enskukennarinn, Jóna Katrín Hilmarsdóttir, við þessar aðstæður, að skrefið yrði tekið til fulls og enskustofan merkt eins og vera bæri. Þetta varð úr. Það er aftur komin enskustofa í Menntaskólanum að Laugarvatni.  Stærðfræði deilir nú stofu með eðlisfræðinni í nýmerktri eðlis- og stærðfræðistofu.

Vefstjóri fjallar hér ekki um ástæður þess, að á myndinni má greina, að þó svo skiltið tilgreini með afgerandi hætti að stofa nr. 206 heiti Enskustofa, þá segir skipulagsblaðið sem hefur verið smeygt inn í skiltið, að þar sé um að ræða Stærðfræðistofu. Þessu misræmi hefur nú verið eytt.

-pms