Mesta umbunin fyrir vel unnið verk er sú sátt sem verður til hið innra.
Það var þetta sem undirrituðum datt í hug eftir að hafa lesið sig í gegnum nýútkominn Mímisbrunn. Bæði heildarsvipurinn á blaðinu og smáatriðin sem fá að njóta sín, bera vitni metnaði og fagmennsku.
Ritstjóri blaðsins, sem er skólablað Menntaskólans að Laugarvatni, er Guðmundur Snæbjörnsson frá Austurey. Hann hefur áður sýnt að textagerð liggur afskaplega vel fyrir honum og það staðfestist rækilega þessu blaði. Vissulega má segja að myndir af honum séu full áberandi, hvort sem er í auglýsingum eða með greinum um aðskiljanlegt efni, en það er samt engan veginn til ama. Það vald sem Guðmundur hefur á rituðu máli er líklega ekki algengt meðal fólks á hans aldri.
Ljósmyndun, hönnun og umbrot blaðsins var í höndum Þorgeirs Sigurðssonar frá Ásólfsskála. Það kemur nú ekkert á óvart að hönnun og umbrot blaðsins skuli vera svo vel unnið sem raun ber vitni, en Þorgeir hefur áður sýnt, með aðkomu sinni að útgáfu innan skólans, að þar er hreint enginn fúskari á ferð. Ljósmyndir Þorgeirs í blaðinu bera vitni um sömu smekkvísi.
Með þeim félögum eiga sæti í ritnefndinni þeir Þorkell Máni Þorkelsson frá Ósabakka og Helgi Jónsson frá Selási. Þeirra hlutur er ef til vill ekki jafn áberandi og þeirra tveggja sem á undan eru nefndir, en sannarlega er þetta blað þeirra verk einnig.
Með þessari vinnu hafa fjórmenningarnir ekki fyllt hirslur sínar af neinum forgengilegum verðmætum. Aukin reynsla og færni, ásamt mikilvægri þekkingu sem verður til við vinnu af þessu tagi, er án efa sú umbun sem skilar mestu.
Það er, af ofangreindum ástæðum, óhætt að óska ritstjórninni og Nemendafélaginu Mími til hamingju með nýjan Mímisbrunn.
-pms