Islenskuferd_frettÍ gær lagði annar bekkur land undir fót og fór í íslenskuferðalag. Ferðin hófst í Skálholti þar sem sr. Egill Hallgrímsson tók vel á móti ML-ingum. Sr. Egill sagði frá sögu staðarins, fór yfir helstu merkismenn Skálholtsstaðar, sýndi okkur ýmsa mæta muni í kirkjunni og í safni kirkjunnar og gekk um nánasta umhverfi með okkur. Þökkum við honum kærlega fyrir góðar móttökur. Frá Skálholti héldum við til Selfoss þar sem beið okkar pizzahlaðborð á Pizza Islandia. Eftir að hafa sporðrennt nokkrum pizzusneiðum var haldið á Draugasetrið á Stokkseyri þar sem nemendur komust í kynni við álfa, tröll, drauga og annað huldufólk. Það var mjög skemmtilegt og hrukku nokkrir í kút inni í safninu. Að lokum héldum við sæl og glöð heim á Laugarvatn. Myndir úr ferðinni má finna á myndasíðunni. Það má með sanni segja að dagurinn heppnaðist afar vel og voru nemendur skólanum til sóma.

Aðalbjörg Bragadóttir, íslenskukennari.