Nemendur 3F og 4N fyrir framan GljúfrasteinNestuð eftirvæntingu í bland við feginleika þess að brjóta upp hið hefðbundna nám héldu nemendur 3.F og 4.N í ferðalag að morgni þriðjudagsins síðasta. Áfangastaðir voru heimili nóbelsskáldsins að Gljúfrasteini og Kjarvalsstaðir í höfuðborginni sjálfri.
Við stýri rútu sat traustur húsbóndinn, sjálfur Pálmi, og honum á hægri hönd sá er ritar.

Að Gljúfrasteini var komið og í hlað rennt, lífsreglur helstu lagðar og út stigið. Á móti hópnum tóku konur tvær spengilegar á velli og allfróðar um lífshlaup skáldsins að auki. Inn var  gengið og tól á eyru sett og leiðbeiningum fylgt og fræðst um skáldaferil hins mesta penna íslenskrar tungu.  Nemendur gerðu góðan róm að og héldu sáttir til rútu og beina leið að leiði meistarans og Auðar eiginkonu hans og hægri handar. Leiðis vitjað og gott ef ekki einstaka krossmark sett í virðingarskyni þrátt fyrir nepjufjanda sem kallaði fljótt til rútu.

Að þessum snúningum loknum var haldið í hina svokölluðu Álafosskvos sem staðsett er í Mosfellsbæ við bakka Varmár, en áin sú varma var einmitt meginástæða þess að þarna óx upp mikill ullariðnaður enda ullarþvottur allur auðveldur í volgu vatninu. Nú, Pálmi húsbóndi hafði séð til þess að blessaðir nemendurnir myndu ekki liða matarskort í menningarreisunni góðu og var því sest að snæðingi í kvosinni, innandyra þó, innan um verkamenn, malandi þvottavél og málverk forn og misfögur.  Að matmáli loknu var haldið út að rútu.

Eina mesta athygli ferðalanga í kvosinni vakti þó bláhvíti fáninn kunnuglegi að húni á tveimur stöngum allháum.  Freistandi var að álykta að hér væri flaggað menntskælingum laugvetnskum til heiðurs en svo mun þó ekki hafa verið heldur íþrótta- og atvinnufrömuðinum Sigurjóni Péturssyni sem einmitt byggði upp Álafossverksmiðjurnar, en þess má svo sem geta einnig að bróðir hans Einar var þekktur bláhvítfánamaður sem gerði það sér að leik að ögra danskinum þegar sá gallinn var á honum í þá tíð.

Nú lá leið að Kjarvalsstöðum, þar tók á móti okkur skeleggur listfræðingur, jú og líka spengilegur, og fræddi hópinn um list og líf málarans með sérstakri áherslu á skissur hans og bréfaskriftir.  Einnig var litið inn á kvennasýningu í sama húsi með heitinu Hér og nú þrjátíu árum síðar.  Þetta þóttu hvoru tveggja áhugaverðar sýningar og ekki síður þótti áhugavert þegar nemendur sjálfir fengu að grípa í liti og fremja eigin verk.  Þess má geta að verk eftir einn þeirra hangir nú uppi í íslenskustofu og er falt að hans sögn, en heiti verksins mun vera angist 13 – opus dei í strætó.

Nú var komið að heimferð og bílstjóri röggsamur kallaði til bíls, nemendur héldu sáttir til sæta og lagt var í hann.  Sumir tóku upp kennslubækur og lásu meðan aðrir sinntu minna mikilvægum verkefnum.  Akstur heim gekk vel þrátt fyrir sudda og slæmt skyggni á köflum.

Allir sáttir, margs vísari um hinar æðri listir og dýpri merkingu hluta.

Að lokum skal þess getið að bæði að Gljúfrasteini og Kjarvalsstöðum var haft orð á því hve nemendur Menntaskólans að Laugarvatni væru fínir og kurteisir í allri viðkynningu.

Magnús Matthíasson

MYNDIR úr ferðinni