Nemendur í 2. bekk fóru í árlega Njáluferð á dögunum léttir í lundu í blíðskaparveðri. Leiðsögumaður ferðarinnar var, ásamt íslenskukennara, Óskar H. Ólafsson fyrrverandi sögukennari í ML. Óskar varð níræður í haust en stóð hnarreistur fremst í rútunni og sagði sögur af köppum og kvenskörungum Njálu. Óskar hefur farið í Njáluferðir með skólanum í áratugi og smitað ófáa nemendur af áhuga sínum á sögunni.
Í morgunsólinni við Gunnarsstein settu nemendur upp bardaga klæddir víkingaklæðum og báru sverð og skildi. Þar mátti sjá Gunnar, Kolskegg og Hjört takast á við þrjátíu menn og fella fjórtán! Nemendur léku líka víg Hjartar hins unga sem varð bræðrum sínum mikill harmdauði. Veðrið var stillt svo háreystin og harmakveinin bárust um víða Rangárvelli líkt og forðum.
Komið var við á fleiri sögustöðum Njálu og var góður rómur gerður að ferðinni. Gísli Einarsson sjónvarpsmaður var einnig með í för ásamt tökumanni og er innslag um ferðina væntanlegt í Landanum sunnudaginn 31. okt.
Elín Una Jónsdóttir íslenskukennari