Fimmtíu og einn nýstúdent brautskráðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni nýliðinn laugardag. Fjölmenni var á útskrift, fjölskyldur nýstúdenta og júbilantar. Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Ísold Egla Guðjónsdóttir frá Selalæk í Rangárþingi ytra en hún var með aðaleinkunnina 9,31 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum. Semi Dux nýstúdenta var Sigurborg Eiríksdóttir frá Seljavöllum í Hornafirði með aðaleinkunnina 9,22. Hlutu þær sem og fjöldi annarra nýstúdenta viðurkenningar kennara og fagstjóra skólans sem og háskóla og sendiráða fyrir afburða árangur í hinum ýmsu greinum. Nýstúdentar sem setið höfðu í stjórn nemendafélagsins Mímis hlutu og viðurkenningu fyrir störf sín. Eins hlaut Andrés Pálmason, Laugarvatni, sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu skólans og nemendafélagsins.
Í ræðu fráfarandi stallara og fulltrúa nýstúdenta, Sigríðar Helgu Steingrímsdóttur, kom m.a. fram: „Í þrjú ár hefur ML verið okkar annað heimili, í þrjú ár höfum við bekkjarfélagarnir gengið saman í gegnum súrt og sætt og í þrjú ár hefur ML mótað okkur og skilar okkur nú sem þroskaðri, vitrari og betri manneskjum. Í gengum góða og slæma daga höfum við krakkarnir staðið saman og stutt þétt við bakið hvort á öðru og kennir það manni margt. Því er hægt að segja að ML hefur ekki einungis kennt okkur að diffra eða það að vita hvaða land Kólumbus fann heldur hefur ML kennt okkur á lífið.“
Skólameistari ávarpaði nýstúdenta í lok hátíðardagskrár og sagði meðal annars: „Farið vel með líf ykkar. Látið kærleikann ráða för í orðum, athöfnum og framgöngu. Berið virðingu fyrir öðrum, skoðunum þeirra og atferli. Berið ábyrgð á lífi ykkar, gjörðum og hugsunum. Hugsið vel um andlegu líðan ykkar og líkamlegt atgervi. Verið dugleg að hreyfa ykkur og gætið að hvað þið látið ofan í ykkur. Það er ævilangt verkefni.“
Veitt var úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur, fyrrverandi skólameistarahjóna, hið tólfta sinni þeim “nýstúdentum sem sýnt hafa frábæran dugnað, hæfileika og ástundun í námi” eins og stendur í stofnskrá að skuli gera. Styrki hlutu:
Ísold Egla Guðjónsdóttir, frá Selalæk í Rangárþingi ytra, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Sigurborg Eiríksdóttir, frá Seljavöllum í Sveitarfélaginu Hornarfirði, nýstúdent af félags- og hugvísindabraut
Þórný Þorsteinsdóttir, frá Rauðuskriðum í Rangárþingi eystra, nýstúdent af náttúruvísindabraut
Sérlega ánægjulegt var að á brautskráningu mættu 65 ára júbilantar, en þeir voru í fyrsta árgangnum sem brautskráðist frá skólanum, vorið 1954. 10 sveinar útskrifðust þá og eru átta þeirra enn á lífi og mættu þeir allir. Þeir eru Þórður Kr. Jóhannsson, Unnar Stefánsson, Sveinn J. Sveinsson, Óskar H. Ólafsson, Árni Bergmann, Víglundur Þór Þorsteinsson, Tryggvi Sigurbjarnarson og Hörður Bergmann.
Skólameistari
Ljósmyndir: Ívar Sæland