Nemendur í fjölmiðlafræði við Menntaskólann að Laugarvatni ásamt Freyju Rós Haraldsdóttur kennara fóru í ferð til Reykjavíkur mánudagin 29. janúar. Pálmi Hilmarsson keyrði hópinn af stað árla morguns. Markmið ferðarinnar var að nemendur myndu kynnast fjölmiðlafræði betur, gera sér grein fyrir hversu vettvangur fjölmiðlunar er stór og í hversu mörg horn þarf að líta. Við heimsóttum RÚV, Morgunblaðið, Kvikmyndaskóla Íslands og í hádeginu var borðað á Grillhúsinu.
Fyrsti viðkomustaður ferðarinnar var RÚV (Ríkisútvarpið). Í anddyri RÚV tók á móti okkur maður að nafni Gunnar Baldursson. Í þessari heimsókn fengu nemendur að kynnast starfi RÚV allt frá fjölmiðlun til förðunar. Nemendum þótti RÚV áhugaverður starfsvettvangur, og spurðu mikið út í starfsemina. Heimsókninni í RÚV lauk laust eftir kl. 11:00.
Fólk sem starfar við fjölmiðlun kemur alls staðar að úr samfélaginu, og hefur fjölbreytta menntun að baki. Ein leiðin inn í geirann er í gegnum Kvikmyndaskóla Íslands, þar hafa margir útskrifast úr námi sem nú starfa við fjölmiðlun. Stefán Loftsson og Sigrún Gylfadóttir sýndu m.a. búnað til myndatöku, stúdíó Kvikmyndaskólans og gerðu grein fyrir skiptingu námsins innan veggja skólans. Það kom skýrt fram að námsgráður duga ekki einar og sér til að ná árangri, heldur skiptir að minnsta kosti jafn miklu máli að orðspor einstaklinga sé gott.
Klukkan 12.00 áttum við pantað borð á Grillhúsinu á Sprengisandi sem hentaði mjög vel þar sem margar garnir voru farnar að gaula. Á Grillhúsinu fengum við að velja okkur annað hvort hamborgara eða fisk og allir voru sáttir með matinn.
Eftir hádegismat var ferðinni heitið í Hádegismóa en þar eru höfuðstöðvar Morgunblaðsins, sem frétta- og upplýsingamiðlunarfyrirtækið Árvakur gefur út. Þegar þangað var komið tók Svanhvít Ljósbjörg Guðmundsdóttir á móti okkur. Við fórum með henni í fundarherbergi og ræddum við hana í dágóða stund. Eftir gott spjall um störf á Morgunblaðinu og verklag þeirra sem þar vinna fengum við að skoða stúdíó útvarpsstöðvarinnar K-100. Næst fórum við yfir í prentsmiðjuna Landsprent sem prentar Morgunblaðið. Þar fengum við meðal annars að sjá stærstu prentvél á Íslandi og hvernig blöðin eru prentuð, en vélin er gríðarlega afkastamikil. Hún getur prentað sjö blöð á sekúndu. Við komumst að því að þessi vél prentar öll hverfisblöð og ýmis blöð sem eru gefin út landsbyggðunum.
Eftir heimsóknina í Morgunblaðið var lá leiðin aftur upp á Laugarvatn. Ferðin heppnaðist vel, nemendur voru almennt áhugasamir og þau sem tóku á móti okkur voru ánægð með það. Allir komu sáttir heim eftir skemmtilegan og viðburðaríkan dag. Myndir úr ferðinni eru hér.
Guðrún Lilja Kristófersdóttir og Þórarinn Guðni Helgason
nemendur í fjölmiðlafræði