Þann 21. október, s.l. kom nývalið foreldraráð saman til fyrsta fundar. Til ráðsins er stofnað í samræmi við lög um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Þar segir þetta um foreldraráð:
50. gr.
Foreldraráð.
Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann.
Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.
Á fundi með forráðamönnum nýnema í ágúst var valinn fulltrúi foreldra þeirra í ráðið, en það er Geirþrúður Sighvatsdóttir, Miðhúsum í Biskupstungum í Bláskógabyggð. Í framhaldinu var leitað til áhugasamra foreldra til að taka sæti í ráðinu sem fulltrúar foreldra nemenda í 2. og 3. bekk. Fulltrúi vegna 2. bekkjar er Kristjana Heyden Gestsdóttir, Hraunteigi í Gnúpverjahreppi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en fulltrúi vegna 3. bekkjar er María Magnúsdóttir, Flúðum í Hrunamannahreppi.
Á fyrsta fundi ráðsins sátu, ásamt fulltrúunum þrem, skólameistari, aðstoðarskólameistari og húsbóndi á heimavist.
Ýmislegt bar á góma á fundinum varðandi starf og hlutverk foreldraráðs ásamt umræðum um ýmis hagsmunamál nemenda, foreldra og skólans.
Fundargerð verður birt á vefnum þegar hún hefur verið afgreidd.
Netföng foreldraráðsfulltrúa:
Geirþrúður: thrudasigh(hjá)simnet.is
Kristjana: hraunteigur(hjá)hraunteigur.is
María: mariamagg(hjá)simnet.is
pms