forvarnaf smallÞað er orðinn einn af föstum liðum haustsins hjá skólanum að fara með alla nýnema skólans í svokallaða forvarnarferð til Reykjavíkur. Upphaf þessara ferða má rekja til þess að á sínum tíma fórum við með nemendur í helgarferð í fjallaskála í Gnúpverjahreppi og fengum þangað fyrirlesara af ýmsu tagi að ræða forvarnarmál. Um kvöldið komu svo skemmtikraftar að aðstoða okkur við kvöldvöku, fengum stundum þekkt andlit úr röðum tónlistarmanna í það. Þær ferðir lögðust af og nokkur síðari ár hefur þetta verið dagsferð til Reykjavíkur. Við lögðum í hann frá ML kl. 13.00 mánudaginn 21. Sept og ókum sem leið lá í höfuðstöðvar SÁÁ í Efstaleitinu.  Þar tók á móti okkur Karl S. Gunnarsson dagskrárstjóri þeirra og hélt hann ágæta tölu um starfsemi samtakanna. Víst er að eitthvað af því sem hann sagði þar kom á óvart og vakti umhugsun. 

 Við fengum síðan gos og prins póló í boði samtakanna í hléi en síðan kom Magnús Stefánsson frá Maritafræðslunni og hélt afar áhrifamikið og gott erindi um skaðsemi kannabis. Virkilega vandaður fyrirlestur hjá honum, fordómalaus en þó þess eðlis að hafa mikinn fælingamátt fyrir hvern þann sem á annað borð hefur eitthvað verið að hugsa um að prófa efni af þessu tagi. Annað hlé fengu krakkarnir en síðan kom leynigesturinn sem var búið að segja þeim frá, sjálfur Páll Óskar Hjálmtýsson gekk í salinn og ræddi við þau um einelti. Fór yfir æskuár sín og hvernig hann mátti þola það að sitja einn og verða fyrir aðkasti ákveðinna aðila og hvernig barnaskólatími hans varð ekki skemmtileg minning. En hann er líka gott dæmi um það hvernig réttur maður á réttum stað getur blómstrað, sumir eiga bara ekki að spila fótbolta meðan öðrum hentar engan veginn að vera skemmtikraftar. Með honum í för var Snædís Birta Ásgeirsdóttir sem kom fram síðasta vetur eftir að hafa þolað hart einelti af hálfu skólasystkina sinna. Hún sagði krökkunum frá því hvernig hennar skólalíf var og hvernig hún hefði brugðist við sínum vanda og fékk mikið og gott klapp fyrir frá okkar krökkum. Við höfum verið afar heppin með það í ML að einelti er nánast óþekkt og þannig viljum við vitanlega hafa það.

Við fórum síðan frá SÁÁ yfir í Fjallakofann þar sem aðallega var verið að sýna nemendum útivistar þann búnað sem í boði væri og fengum stutta kynningu frá eiganda verslunarinnar um ýmsan búnað sem þar er til sölu og myndi henta þeim. Svo var það rúsínan í pylsuendanum eins og stundum er sagt, við renndum í Egilshöll í keilu þar sem búið var að raða öllum á brautir fyrirfram, hluti af hópefli til að hrista hópinn enn betur saman. Á brautirnar komu síðan pitsur eins og hver gat í sig látið og allir fóru sáttir heim úr þessari ferð sem tókst afar vel í alla staði.

Komin heim á Laugarvatn um kl. 20.30.

Með í för voru

Pálmi Hilmarsson og Helga Kristín Sæbjörnsdóttir.

MYNDIR