Einn af föstu liðunum í skólastarfi Menntaskólans að Laugarvatni, nokkuð mörg undanfarin ár, er að fara með alla nýnema í forvarnarferð. Fyrstu árin fórum við inn í Hólaskóg sem er fjallaskáli á Gnúpverjaafrétti og fengum þangað fyrirlesara af ýmsu tagi. Gist var eina nótt og krakkarnir sáu um kvöldvöku. Það var mikið hópefli fólgið í þessu enda var reynt að fara sem allra fyrst á haustin. Með tilkomu útivistarinnar var gerð breyting á þessum ferðum og farið til Reykjavíkur og nú án þess að gista.
Lagt var í hann í rútu frá Guðmundi Tyrfingssyni frá ML kl. 13.00 og haldið um Þingvöll til Reykjavíkur. SÁÁ samtökin hafa reynst okkur afar vel í alla staði og þar höfum við fengið aðstöðu í glæsilegum sal þeirra í Efstaleiti.
Hörður J. Oddfríðarson dagskrárstjóri er okkar tengiliður þar og hefur séð um að fræða nemendur um starfsemi samtakanna á margan hátt. Það gerði hann líka núna en auk hans kom svo Þorgrímur Þráinsson rithöfundur og var með afar hvetjandi og uppbyggilegan pistil um ástina á lífinu almennt má segja. Hvernig við þurfum að gæta vel að náunganum og missa ekki sjónar á því hvað við höfum það gott í rauninni. Okkur var síðan boðið upp á gos og kanilsnúða í hléi áður en síðasti fyrirlesarinn kom en það var Svanhildur Skúladóttir frá VÍS sem fór yfir hve alvarlegt það getur reynst að valda tjóni undir áhrifum áfengis á bíl. Það eru miklar upphæðir sem fólk getur lent í að borga fyrir eignatjón svo ekki sé nú talað um að verða fyrir því að skaða einhvern og þá jafnvel nána vini. Auk þess er það ekkert grín að vera farþegi í bíl sem er yfirfullur og þar ber vitanlega ökumaður alla ábyrgð. Meginreglan að stíga aldrei um borð í ofhlaðinn bíl og alls ekki ef grunur er um að ökumaður sé undir áhrifum áfengis. Í lokin á þessari heimsókn var síðan pitsaveisla frá Dominos og þegar allur frágangur var búinn var farið í stutta heimsókn í útivistarbúðina Fjallakofann. Flestir nemendur í fyrsta bekk velja útivistina og þar sem þær ferðir eru að byrja þá var upplagt að koma við í slíkri búð og skoða hvort ekki vantaði eitthvað. Þaðan lá leiðin í Egilshöllina þar sem var keilukeppni en búið var að raða nemendum á brautir fyrirfram. Allt gekk mjög vel fyrir sig og nemendur voru sér og sínum skóla til fyrirmyndar svo við undirrituð fórum glöð í bragði heim á leið.
Það er mjög vel gert af hálfu skólans að standa að slíkri ferð, ekki allir framhaldsskólar sem ná því á tímum sparnaðar og niðurskurðar en það hefur sínt sig að ferðirnar eru að skila árangri. Eitthvað situr eftir hjá nemendum í hverri ferð og þau hafa oftar en ekki rætt við okkur seinna meir um hluti sem minnst var á í forvarnarferðinni af einhverjum fyrirlesaranum. Stundum hafa komið menn frá tollinum og sýnt hvernig unnið er með fíkniefnahundana, þá hefur oft verið rætt um einelti, bæði á netinu og í skólanum almennt. Við höfum reyndar sloppið vel við þann ófögnuð og í þeim fáu tilvikum sem hefur borið á slíku verið tekið af festu á gerendum. Mikið hópefli er fólgið í svona ferð og nýnemar ná að þétta hópinn enn frekar og þannig mætti lengi telja. SÁÁ eru enn og aftur færðar bestu þakkir fyrir afnotin af þeirra húsnæði og afar góðar móttökur nú sem áður enda væri þessi ferð varla farin án aðkomu þeirra.