Keila í EgilshöllinniÞað er orðinn einn af föstu punktunum í starfsemi Menntaskólans að Laugarvatni að fara með alla nýnema í svokallaða forvarnarferð til Reykjavíkur. Þetta er liður í nokkuð öflugu forvarnarstarfi sem allan veturinn er unnið af hálfu skólans með ýmsum hætti. Ferðir þessar byrjuðu þannig að farið var með nýnema í ferð inn á afrétt Gnúpverja og gist þar í afar góðum skála sem ber nafnið Hólaskógur. Þangað komu svo hinir ýmsu fyrirlesarar auk þess sem þekktir tónlistarmenn voru fengnir til að koma á kvöldvöku og skemmta um kvöldið.  Þessar ferðir lögðust af með breyttri starfsemi í skálanum en í stað þeirra var tekið upp á að fara til Reykjavíkur. Það höfum við nú gert í all nokkur ár og gengið vel, ávallt tekist vel.

Engin breyting varð á því að þessu sinni en við lögðum í hann kl. 13.00 fimmtudaginn 18. Sept. Ekið var sem leið lá í höfuðstöðvar SÁÁ en þar tók að vanda á móti okkur Hörður J. Oddfríðarson dagskrárstjóri. Hann fór síðan í fljótu bragði yfir starfsemi SÁÁ og svaraði fyrirspurnum á eftir.

Þá fengu krakkarnir sér kókó mjólk og kex frá Sveini bryta á meðan næsti fyrirlesari gerði sig kláran. Það var Kristín Sveinsdóttir frá Heimili og skóla en hún ræddi við krakkana um heilbrigða netnotkun, hve mikilvægt væri að gæta orða sinna því erfitt væri að taka til baka það sem á annað borð væri komið á netið. Einnig kom hún inn á netfíkn eða tölvufíkn almennt því auðvelt er að gleyma sér í leik tímunum saman.

Strax á hæla henni kom svo Magnús Stefánsson frá Maritafræðslunni. Hann ræddi um vímuefni í víðum skilningi en einkum var fókusinn settur á kannabis. Afar góður og skilmerkilegur fyrirlestur sem án efa mun hafa sitt að segja þegar að þeim tíma kemur að þessum krökkum verði boðið gras eða eitthvað þeim mun verra. Krakkarnir voru til fyrirmyndar öll sem eitt og  voru ánægð með dagskrána.

En þá var það rúsínan í pylsuendanum eða þannig, næsta stopp var Egilshöllin en þar fórum við í keilu og fengum á borðin til okkar pitsur og gos. Góð stemming, mikið hópefli fólgið í keilu, einhvern veginn hafa allir gaman að þessu þó gengið sé misjafnt.  Eftir keiluna var svo farið í ísbúð til að kæla sig niður og að lokum brunað á Laugarvatn og komið þangað eftir vel heppnaða ferð um kl. 20.30.

Pálmi Hilmarsson forvarnarfulltrúi

Freyja Rós Haraldsdóttir kennari.

Nokkrar myndir