forvarnaferdrvk

Samkvæmt venju var farið með nemendur fyrsta bekkjar til Reykjavíkur í forvarnarferð. Við fórum eftir hádegi miðvikudaginn 19. okt. af stað og lá leiðin í höfuðstöðvar SÁÁ í Efstaleiti. Þar var fyrsti fyrirlesari, ungur maður að nafni Gunnar Magnús Halldórsson Diego og ræddi hann afar opinskátt við okkur um reynslu sína af einelti og hvaða afleiðingar slíkt getur haft í för með sér fyrir þolandann. Tókst honum vel að koma frá sér þessu vandmeðfarna efni og líklegt að þetta hafi opnað enn betur augu flestra fyrir því hversu illa þetta getur leikið fólk.  Á eftir Gunnari kom svo Ásta Þorsteinsdóttir frá tryggingafélaginu VÍS. Hennar hlutverk var að gera nemendum ljósa stöðu þeirra ef þau taka þá ákvörðun að stíga upp í bifreið þar sem þau vita að ökumaður er undir áhrifum eða einn eða fleiri yfirfarþegar eru í bílnum. Þessir hlutir gera það að verkum að afar erfitt getur verið að sækja bætur og stundum jafnvel missir fólk réttinn á bótum og það er ekkert grín að standa uppi slasaður og án bóta. Staða ökumanns í þessum tilvikum er vitanlega enn verri því hann getur þurft að greiða þolendum tugi milljóna í bætur þar sem tryggingafélagið á endurkröfurétt á ökumann sé hann undir áhrifum. Sama á við um vítaverðan eða ógætilegan akstur. Margir þessara krakka eru að hefja ökunám og teljum við þetta hafa verið afar gott innlegg í það. Vonandi passa þau sig öll. Að lokum var það Hörður J. Oddfríðarson sem fræddi krakkana um starfsemi SÁÁ og fór hann um víðan völl í þeim efnum. Innlagnartölur koma á óvart og einkum hve mikil aukningin er á kannabisneytendum sem eru komnir í afar slæm mál. Að loknum fyrirlestrum var náð í pitsur frá Dominos og þeim gerð góð skil í salnum í Efstaleitinu og eru SÁÁ færðar hjartans þakkir fyrir aðstöðuna og aðstoð alla. Dagurinn endaði svo á keiluferð í Keiluhöllina þar sem hörð keppni fór fram um efstu sæti og varð undirritaður að játa sig sigraðan að lokum. Við komum á Laugarvatn um kl. 20.30.Fararstjórar í þessari ferð voru Aðalbjörg Bragadóttir og Pálmi Hilmarsson. Pálmi Hilmarssonforvarnafulltrúi ML