saaSú hefð hefur skapast hér í ML að í byrjun haustannar er farið til Reykjavíkur með alla nýnema skólans og heimsóttar höfuðstöðvar SÁÁ. Þar hafa komið í gegnum tíðina fyrirlesarar af ýmsu tagi eða fulltrúar frá Lögreglu, tryggingafélögum eða jafnvel sérþjálfaðir hundar frá tollinum og nemendur hafa þá séð þá vinna.  Að þessu sinni var ferðin þannig útfærð að lagt var af stað frá Laugarvatni kl. 13.00 mánudaginn 10 september.

Ekið var beina leið í Efstaleitið þar sem Hörður J. Oddfríðarson dagskrárstjóri tók á móti okkur. Hann hélt síðan fyrirlestur um þá starfsemi sem er í gangi hjá SÁÁ og líklega hefur eitt og annað í máli hans komið einhverjum á óvart því oft gera krakkar á þessum aldri sér ekki almennilega grein fyrir hve lúmskur Bakkus getur verið og vandinn víðtækur.  Þá var hlé og allir fengu kókómjólk og heimabakaða snúða frá Sveini bryta.   Næstur í pontu var svo Sverrir Jónsson læknir frá SÁÁ en hann fór vandlega yfir það hver áhrif það hefur á líkamann að neyta kannabis. Fróðlegt erindi hjá honum og vonandi hugsa nú allir sig tvisvar um áður en það hvarflar að þeim að fikta við þennan skolla. Framboð af þessu er mikið á landsvísu og það þarf að styðja vel við bakið á nemendum og hvetja þau til þess að láta ekki freistast við hvaða aðstæður sem er. Síðasti fyrirlesari var svo Matti Ósvald nuddari og heilsuráðgjafi. Hann ræddi um hve nauðsynlegt er að hugsa um það sem við látum ofaní okkur, hvaða áhrif það hefur að háma í sig snakk og annað í þeim dúr í stað þess að neyta hollari fæðu. Þar að auki fór hann inn á hvernig þau gætu virkjað sig betur með réttu hugarfari, jákvæðu lífsviðhorfi ofl. í þeim dúr. Afar gott erindi og krakkarnir spurðu talsvert út í þessa hluti og höfðu heilmiklar skoðanir.

Að þessu loknu fórum við í Keiluhöllina þar sem við fengum pitsahlaðborð og í framhaldi af því var keppt í keilu á mörgum brautum. Á Laugarvatn komum við svo eftir vel heppnaða ferð um kl. 21.00.

Pálmi Hilmarsson  forvarnarfulltrúi

Gríma Guðmundadóttir námsráðgjafi.