Flest allir framhaldsskólar landsins, reyndar er réttara að segja allir, leggja töluverða áherslu á forvarnir í sínu starfi. Hvert árið sem líður án þess að nemendur byrji að neyta áfengis, reykja eða að ekki sé nú talað um önnur efni er þeim í hag. ML hefur um margra ára skeið haft það fyrir reglu að við allra fyrsta tækifæri á haustin er farið í forvarnarferð til Reykjavíkur með allan fyrsta bekk. Fyrirkomulagið er oftast svipað, við förum beina leið í höfuðstöðvar SÁÁ og fáum þangað fyrirlesara af ýmsu tagi, allt eftir því hvað okkur finnst vera brýnast hverju sinni. Við höfum fengið til okkar aðila frá tryggingafélögunum, krabbameinsfélaginu, tónlistarmenn, lögreglumenn ofl.

Að þessu sinni fórum við í ferðina þann 11. sept. Fyrsti fyrirlesari var Sigrún Elva Einarsdóttir frá krabbameinsfélaginu en hún fór yfir skaðsemi reykinga almennt og einnig fór hún yfir rafsígarettur. Það er búin að vera mikil uppsveifla í notkun á þeim og ekki allir sammála um hvort og hversu mikill skaði sé af þeim. Allavega ljóst að talsvert vantar upp á rannsóknir til að hægt sé að fullyrða að þetta sé skaðlaust.  Næstur var svo Karl S. Gunnarsson dagskrárstjóri hjá SÁÁ. Hann fór yfir innlagnir, hvernig þær hafa breyst á liðnum árum og svo almennt hver starfsemi samtakanna er. Í síðasta fyrirlestur kom Óli Örn Atlason en hann hefur starfað lengi hjá félagsmiðstöðum í Reykjavík. Hann fór yfir ábyrga netnotkun og að það væri hreint ekki sama hvað fólk segir eða lætur frá sér á samfélagsmiðlum. Myndir, umsagnir eða komment um fólk, geta verið særandi og hver og einn verði að hugsa það til enda sem hann sendir frá sér. Mjög gott erindi hjá honum, nær vel til þessa aldurshóps.

Þá var farið í heimsókn í Fjallakofann til að skoða útivistarvörur en margir í hópnum eru með útivist sem valfag. Einhverjir gerðu góð kaup en síðan var ekið rakleiðis í Egilshöll og þar var keppt í keilu. Pitsur komu á brautirnar og allir fóru heim saddir og sælir að loknum góðum degi. Ferðir þessar hafa skilað sér í góðu hópefli, talsverðri fræðslu og klárt að eitthvað situr eftir hjá þeim öllum.

Með í för voru frá skólanum

Pálmi Hilmarsson

María Carmen Magnúsdóttir sem tók þessar myndir hér.